Enski boltinn

Fred: Falskar fréttir úr búningsklefa Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo faðmar Fred eftir leik Manchester United á móti Burnley í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.
Cristiano Ronaldo faðmar Fred eftir leik Manchester United á móti Burnley í ensku úrvalsdeildinni á dögunum. EPA-EFE/PETER POWELL

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Fred segir ekkert til í þeim fréttum að einhver óeining sé meðal leikmanna Manchester United eins og hefur verið skrifað talsvert um í enskum miðlum að undanförnu.

Það hefur lítið gengið hjá United á tímabilinu og liðið hefur gefið á sér höggstað með ástríðulitlum og ósannfærandi leik að undanförnu. Allt fór síðan á flug um slæma stöðu á bak við tjöldin eftir ummæli Luke Shaw í viðtali eftir tapleik á móti Úlfunum.

Luke Shaw talaði þar um að leikmenn liðsins væru ekki allir að vinna saman.

Miðjumaðurinn Fred sendir þær fréttir til föðurhúsanna um að það séu klíkur innan Manchester United hópsins.

Fred telur að það sé bara eðlilegt að leikmenn, sem tali saman tungumál, verði góðir félagar en segir að andrúmsloftið í búningsklefanum sé frábært.

„Við sem tölum portúgölsku, við tölum saman og erum góðir vinir,“ sagði Fred við ESPN í Brasilíu.

„Ég hef verið góður vinur Alex Telles innan sem utan vallar í mörg ár. Ég er því nánari honum en það þýðir ekki að ég tali ekki við [Jesse] Lingard, [Marcus] Rashford, [Mason] Greenwood eða [Harry] Maguire og hina ensku leikmennina,“ sagði Fred.

„Við eigum mjög góðan vinskap og það er frábært andrúmsloft í búningsklefanum. Við erum góðir vinir og erum alltaf að hafa gaman saman,“ sagði Fred.

„Í hvert skipti sem það er mögulegt þá borðum við saman. Það hefur ekki gerst upp á síðkastið út af COVID-19 en við reynum alltaf að vera saman,“ sagði Fred.

„Þetta er risastór klúbbur og fólk mun alltaf reyna að segja eitthvað um okkur. Cristiano Ronaldo er frábær leikmaður sem allir vilja tala um og því miður fara falskar fréttir að koma út. Þetta er bara því miður hluti af þessu,“ sagði Fred.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.