Innlent

Fjórir kiðlingar fæddir: Fyrstu vorboðarnir í sveitinni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Stefanía Sigurðardóttir með Jólastjörnu, sem fæddist á annan í jólum.
Stefanía Sigurðardóttir með Jólastjörnu, sem fæddist á annan í jólum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fyrstu vorboðarnir hafa nú litið dagsins ljós á sveitabæ á Suðurlandi því fjórir kiðlingar voru að koma í heiminn þar við mikla ánægju heimilisfólksins.

Kiðlingarnir fæddust á bænum Vorsabæ II í Skeiða og Gnúpverjahreppi hjá Stefaníu Sigurðardóttur og fjölskyldu. Á bænum eru 15 geitur. Nýbornu geiturnar fá að vera í hestastíunum þar sem vel um þær með kiðin sín.

„Þetta er hún Jólastjarna, hún fæddist að morgni annars á jólum alveg óvænt. Það bættist í jólaskapið hjá okkur að fá þennan glaðning. Svona óvæntan glaðning,“ segir Stefanía.

Svo er eitthvað meira búið að gerast?

„Já heldur betur, það var núna í gær að það bætast við einn kiðlingur og í morgun tveir í viðbót, þannig að það eru fjórar bornar.“

Kiðin eru fljót að komast á spena hjá mæðrum sínum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Stefanía segir fátt yndislegra en að vera með geitur og svo þegar kiðin fæðist, það sé toppurinn.

Og gaman í öllu þessu Covid fári að fá kið?

„Já, já, ég gæti jafnvel trúað að lyktin frá þeim haldi frá veirunni, hún er svo holl að gott að anda henni að sér, þannig allir ættu að fá sér geitur“, segir Stefanía og hlær.

Stefanía segir kiðlingana skemmtilega vorboða.

„Já,  það er ekki einu sinni komin þorri og hvað þá góa, það eru bara vetrarharðindi, vindurinn blæs úti og snjór. Þá er gott að hafa eitthvað glaðlegt og ljúft hérna inni í gripahúsunum,“ segir Stefanía geitabóndi með meiru.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.