Enski boltinn

Sóknar­mennirnir okkar þurfa að stíga upp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thomas Tuchel var ekki sáttur.
Thomas Tuchel var ekki sáttur. EPA-EFE/Tim Keeton

Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, var ekki parsáttur með framherja sína eftir 1-0 tap liðsins gegn Manchester City í uppgjöri toppliða ensku úrvalsdeildarinnar.

„Miðað við kringumstæðurnar, ef þú horfir á öftustu fimm hjá okkur og skoðar hvaða leikmenn okkur vantaði þá er ég sáttur við frammistöðuna varnarlega,“ byrjaði Tuchel á að segja í viðtali eftir leik.

„Við sköpuðum okkur nokkur færi eftir skyndisóknir í síðari hálfleik. Við fengum eitt gott færi til að taka forystuna en á endanum töpuðum við í jöfnum leik, það gerist. Þetta snerist um einstaklingsgæði og okkur vantaði þau upp á topp ef ég er hreinskilinn,“ bætti Þjóðverjinn við og sendi þar með sóknarmönnum sínum skýr skilaboð.

„Þú verður að bíða eftir augnablikinu. Við fengum sömu tækifæri í fyrri hálfleik en eftir átta eða níu skyndisóknir áttum við enn eftir að ná snertingu á boltann inn í vítateig þeirra. Fyrirgjafir og gæði okkar á boltanum voru alls ekki á hæsta getustigi í dag. Við þurfum að ná því til að fá hálffæri, hvað þá almennileg færi gegn City en það var það sem vantaði í fyrri hálfleik.“

„Sóknarmennirnir okkar þurfa að standa sig betur. Við þurfum meiri stöðugleika. Chelsea er ekki staður þar sem þú getur falið þig.“

Um titilbaráttuna

„Þetta snýst um hungur. Við erum að reyna, þið getið verið viss um það en ef Man City vinnur 12 leiki í röð á meðan við erum að glíma við meiðsli og Covid þá er það ekki besti tíminn til að brúa bilið. Munurinn er orðinn frekar stór af því þeir höndla meiðsli og Covid betur en við,“ sagði Tuchel að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.