Fótbolti

Þarf að gera sér grein fyrir því að ef and­stæðingurinn er betri en þú þá er eðli­legt að tapa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. EPA-EFE/Friedemann Vogel

„Maður er aldrei glaður eftir tap. Þetta var náttúrulega leikur á móti ógnarsterkum andstæðingi sem við vissum og töluðum um við leikmennina í gær,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, að loknu stóru tapi gegn Suður-Kóreu í vináttulandsleik í dag.

„Suður-Kórea er einfaldlega með lið sem er búið að spila lengi saman og þegar 85 prósent af þeirra hóp er að spila og við vitum af leikmönnum sem gegna núna herskyldu í S-Kóreu og eru því ekki komnir til Evrópu – þá vitum við að þetta er erfitt – og mikil áskorun að spila á móti svona liðum,“ sagði Arnar Þór um mótherja dagsins.

„Líka ástæða fyrir að við viljum spila á móti svona liðum. Þó þetta sé áskorun og mikil hlaup fyrir strákana að ég og þjálfarateymið fáum bara svör við ákveðnum spurningum frá leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Það var hluti af því að verkefni að spila gegn mismunandi andstæðingum eins og Úganda og Suður-Kórea.“

„Það þarf líka að gera sér grein fyrir að ef andstæðingurinn er betri en þú er eðlilegt að tapa. Sérstaklega þegar þeir settu í fimmta gírinn og byrjuðu að spila þennan einnar snertingarbolta, þennan „play and move“ fótbolta sem þeir eru fráærir í. Eru tæknilega góðir og frábærir án bolta. Fyrsta markið er frábær, spila sig í gegnum vörnina hjá okkur.“

„Þetta eru hlutir sem við vitum og vissum að þeir gætu gert. Ég var ánægður með seinni hálfleikinn að þessu leti til að við náðum að loka betur á þeirra samspil og vorum betri sjálfir á boltann en eins og ég segi, fjórða markið í seinni hálfleik er frábært mark hjá þeim.“

„Er mjög ánægður með ákveðna leikmenn og þau svör sem ég fékk. Ekki endilega bara inn á vellinum þó þar séu mikilvægustu skrefin sem þurfi að taka. Það hafa verið nokkrir leikmenn sem ég er mjög ánægður með þó ég ætli ekki að nefna nein sérstök nöfn.“

„Þrátt fyrir að leikplanið væri að ýta þeim út og pressa bakverðina hjá þeim þegar þeir fengu boltann. En aftur, gæðin hjá andstæðingunum gera mikinn mun.“

„Jákvætt við eigum marga unga og efnilega markmenn sem eru að taka góð skref í sínum félagsliðum,“ sagði Arnar Þór að endingu en Hákon Rafn Valdimarsson varði til að mynda vítaspyrnu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×