Fótbolti

Bjarki Steinn lánaður í C-deildina | Venezia semur við Nani

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarki Steinn Bjarkason í eitursvalri treyju Venezia.
Bjarki Steinn Bjarkason í eitursvalri treyju Venezia. Getty

Bjarki Steinn Bjarkason hefur verið lánaður frá ítalska úrvalsdeildarliðinu Venezia til Catanzaro sem leikur í C-deildinni þar í landi. Ástæðan var eflaust sú að Venezia hafði ákveðið að sækja fyrrverandi leikmann Manchester United, Nani, til að krydda upp á sóknarleikinn.

Bjarki Steinn fer á láni út tímabilið líkt og framherjinn Óttar Magnús Karlsson sem leikur með Siena í C-deildinni á láni. Þetta kemur ef til vill á óvart þar sem Bjarki Steinn lék sinn fyrsta leik í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni, nýverið. Hann kom þá inn af bekknum undir lok leiks gegn Sampdoria.

Bjarki Steinn lék með ÍA áður en Venezia – þá í B-deild – festi kaup á honum síðla sumars 2020. Samningur leikmannsins rennur út nú í sumar.

Skömmu eftir að tilkynnt hafði verið um brottför Bjarka Steins staðfesti Venezia að portúgalski vængmaðurinn Nani væri á leiðinni til félagsins. Hann hefur leikið með Orlando City í MLS-deildinni undanfarin ár en gerði garðinn frægan með Manchester United hér á árum áður. Nani er 35 ára gamall en skrifaði undir samning til sumarsins 2023.

Nani í leik með Orlando.Joe Petro/Getty Images

Aðeins einn Íslendingur er eftir í herbúðum Venezia sem situr í 17. sæti Serie A, einu stigi fyrir ofan fallsæti. Það er Arnór Sigurðsson en hann er á láni hjá félaginu frá CSKA Moskvu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.