Fótbolti

Sanchez tryggði Inter Ofur­bikarinn á síðustu mínútu fram­lengingar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sanchez fagnar sigurmarki sínu.
Sanchez fagnar sigurmarki sínu. Emilio Andreoli/Getty Images

Það var heldur betur dramatík er Ítalíumeistarar Inter og Juventus mættust í leiknum um ítalska Ofurbikarinn í knattspyrnu í kvöld. Sigurmarkið kom á lokamínútu framlengingar eftir að staðan var jöfn 1-1 að loknum venjulegum leiktíma.

Juventus komst yfir um miðbik fyrri hálfleik þegar Álvaro Morata gaf fyrir á miðjumanninn Weston McKennie sem skoraði með skalla af stuttu færi. 

Adam var þó ekki lengi í paradís en tíu mínútum síðar fengu Ítalíumeistararnir vítaspyrnu er Mattia De Sciglio braut á Daniele Doveri innan vítateigs.

Á punktinn steig argentíski framherjinn Lautaro Martinez og skoraði hann af öruggi. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún í hálfleik. Síðari hálfleikur var markalaus en bæði lið gerðu urmul skiptinga.

Þegar stundarfjórðungur var til loka venjulega leiktíma kom Alexis Sanchez inn af bekknum. Talað hefur verið um að Inter sé tilbúið að leyfa honum að fara frítt í janúar en Sanchez minnti heldur betur á sig í kvöld.

Staðan var enn jöfn 1-1 eftir 90 mínútur, því þurfti að framlengja. Það stefndi allt í vítaspyrnukeppni en á lokamínútu framlengingarinnar skoraði Sanchez eftir darraðardans í vítateig Juventus.

Sanchez fagnaði með því að rífa sig úr búningnum sem og treyjunni sem var þar undir. Hann fékk gult spjald fyrir en gat vart verið meira sama. Staðan orðin 2-1 og var leikurinn flautaður af í kjölfarið. 

Ítalíumeistarar Inter vinna þar með Ofurbikarinn 2022.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.