Um­fjöllun og viðtöl: Úganda - Ís­land 1-1 | Hófu árið á jafn­tefli í Tyrk­landi

Ingvi Þór Sæmundsson og Sindri Sverrisson skrifa
Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði Íslands í Tyrklandi í dag.
Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði Íslands í Tyrklandi í dag. vísir/vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta gerði 1-1 jafntefli Úganda í fyrsta leik sínum á árinu 2022. Þetta var í fyrsta sinn sem þessar þjóðir mætast.

Ísland mætir Suður-Kóreu í seinni vináttulandsleik sínum í þessari Tyrklandsför, á laugardaginn.

Jón Daði skoraði eftir fimm mínútur

Jón Daði Böðvarsson hefur ekki fengið að spila fótboltaleik síðan í ágúst, þar sem hann er algjörlega í frystikistunni hjá enska félaginu Millwall. Selfyssingurinn var þó ekki ryðgaðri en svo að hann skoraði eftir fimm mínútna leik í dag.

Viðar Ari Jónsson átti stoðsendinguna, líkt og hann var svo duglegur við í norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Viðar og og Viktor Karl Einarsson tóku þríhyrningsspil úti á hægri kanti og Viðar sendi svo fyrirgjöf á Jón Daða sem kom Íslandi í 1-0 af stuttu færi.

Jón Daði og Arnór Ingvi Traustason skáru sig mikið úr í annars mjög reynslulitlu byrjunarliði Íslands, sem auðvitað naut ekki leikmanna sem eru á miðju tímabili með sínum félagsliðum.

Margir nýliðar

Sex nýliðar voru í byrjunarliðinu, þar á meðal markvörðurinn Jökull Andrésson sem kom beint inn í markið eftir að hafa óvænt verið kallaður inn í hópinn vegna meiðsla Patriks Gunnarssonar. Hinir voru Finnur Tómas Pálmason, Atli Barkarson, Viktor Örlygur Andrason, Viktor Karl Einarsson og Valdimar Þór Ingimundarson.

Íslensku vörninni gekk vel að halda liði Úganda í skefjum eftir að hafa komist yfir, og verkefnið virtist nokkuð þægilegt lengst af í fyrri hálfleik þó að nokkuð væri um tæpar sendingar manna á milli í vörninni.

Jöfnuðu metin af vítapunktinum

Úganda fékk þó örstöku sinnum tækifæri til að nýta hraða sinna fremstu manna, og það gerði liðið eftir hálftíma leik þegar Steven Mukwala slapp inn fyrir miðverði Íslands og Ari Leifsson reif hann niður í vítateignum. Kaddu Patrick skoraði úr vítaspyrnunni sem dæmd var, með skoti beint á markið.

Jón Daði var nálægt því að senda Arnór Ingva einan gegn markverði í skyndisókn, en sendingin var ekki nógu góð. Hann átti svo skömmu síðar skot sem markvörður Úganda lenti í smávandræðum með, en staðan í hálfleik var jöfn, 1-1.

Tveir nýliðar til viðbótar þreyttu frumraun

Seinni hálfleikurinn byrjaði afar rólega en Íslendingar vildu þó fá vítaspyrnu þegar tíu mínútur voru liðnar af honum, þegar boltinn fór í hönd eins leikmanna Úganda af stuttu færi innan teigs, eftir að þeir höfðu nánast bjargað á línu eftir skot Jóns Daða. Það hefði þó verið afar strangur, og sennilega rangur, dómur.

Fátt fleira markvert gerðist í seinni hálfleiknum en Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari gaf fleiri leikmönnum tækifæri og tveir til viðbótar léku sinn fyrsta A-landsleik. Hákon Rafn Valdimarsson hélt markinu hreinu í seinni hálfleiknum og Kristall Máni Ingason kom inn á á 74. mínútu, en alls gerði Arnar sex skiptingar í leiknum.

Íslendingar verða aftur á ferðinni í Tyrklandi gegn Suður-Kóreu á laugardaginn og þá gefst annað tækifæri fyrir leikmenn til að tryggja sér farseðilinn til Spánar í mars, þegar aðallandslið Íslands leikur tvo vináttulandsleiki við Finnland og Spán.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.