Erlent

Lög­regla sökuð um að hygla valda­mönnum vegna teitisins í ráðu­neytinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan í Lundúnum hefur verið sökuð um að hygla valdamönnum fyrir að hafa ekki rannsakað meint sóttvarnabrot í teiti sem haldið var í forsætisráðuneyti Englands í maí 2020 þegar aðeins tveir máttu koma saman utandyra.
Lögreglan í Lundúnum hefur verið sökuð um að hygla valdamönnum fyrir að hafa ekki rannsakað meint sóttvarnabrot í teiti sem haldið var í forsætisráðuneyti Englands í maí 2020 þegar aðeins tveir máttu koma saman utandyra. Getty/Leon Neal

Lögregluembætti Lundúna hefur verið sakað um að hygla valdamönnum með því að hafa ekki rannsakað teiti sem haldin voru í forsætisráðuneytinu þvert á samkomutakmarkanir. 

Greint var frá því í gær að um eitt hundrað starfsmönnum forsætisráðuneyti Englands hafi verið boðið í garðpartí 20. maí 2020 þegar einungis tveir máttu koma saman utandyra í Englandi. Samkvæmt heimildum fjölmiðla austanhafs mættu um fjörutíu starfsmenn í partýið, þar á meðal Boris Johnson forsætisráðherra og eiginkona hans Carrie. 

Lögregluembættið sagði í yfirlýsingu í morgun að það sé í sambandi við ráðuneytið vegna fréttaflutnings um meint brot á samgöngutakmörkunum í forsætisráðuneytinu þann 20. maí 2020. 

Málið var til mikillar umfjöllunar hjá fjölmiðlum í Bretlandi í gær eftir að ITV birti tölvupóst sem aðstoðarmaður forsætisráðherrans hafði sent á starfsmenn. Tölvupósturinn var sendur á meira en hundrað starfsmenn og var yfirskrift hans: „Fjarlægðartakmarkaðir drykkir! (FORMLEGT-VIÐKVÆMT-NR. 10 EINGÖNGU).“

Fram kom í póstinum að eftir þann annasama tíma sem að baki væri hafi þeim (óvíst hverjir þeir eru) dottið í hug að nýta veðurblíðuna og hittast í fjarlægðartakmarkaða drykki í garðinum á Nr. 10, sem er viðurnefni forsætisráðuneytisins sem er við Downingstræti 10. Þá voru starfsmenn hvattir til að mæta með eigið áfengi. 

Jane Connors, sem fer fyrir rannsókn sótthvíarbrota hjá lögreglu Lundúna, sagði í dag að lögregluembættið væri að endurskoða þá reglu embættisins að rannsaka eldri sóttvarnabrot ekki aftur í tímann. Þá hafi lögregluembættið verið varað við því að traust almennings á því færi dvínandi. 

Embættið hefur einnig verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki rannsakað teiti sem á að hafa átt sér stað í forsætisráðuneytinu 18. desember 2020. Við rannsókn þess máls sagði lögreglan að hún treysti á að embættið hafi sagt satt og rétt frá um að engar sóttvarnareglur hafi verið brotnar í tetinu. Þá hafi ekki verið nein ástæða til að yfirheyra starfsmenn ráðuneytisins um þessi meintu partý þar sem þeir hefðu neitað að svara spurningum embættisins. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.