Innlent

Bólusetningar barna 5 til 11 ára hefjast í Laugardalshöll

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Búið er að bólusetja börn 12 til 15 ára og leikskólabörnum fæddum 2017 verður boðin bólusetning þegar þau ná 5 ára aldri.
Búið er að bólusetja börn 12 til 15 ára og leikskólabörnum fæddum 2017 verður boðin bólusetning þegar þau ná 5 ára aldri. Vísir/Vilhelm

Bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára hefjast í dag. Á höfuðborgarsvæðinu fara þær fram í Laugardalshöll, á milli klukkan 12 og 18. Börn mæta með fylgdarmanni, sem er með barninu allan tímann og bíður með því eftir bólusetningu.

Grímuskylda er fyrir bæði börn og fullorðna. Systkini mega koma á sama tíma. Að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag munu leikarar úr Þjóðleikhúsinu verða á staðnum til að dreifa huga barnanna.

Tímasetning bólusetningar ræðst eftir fæðingarmánuði en í dag verða börn bólusett sem skráð eru í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði og Reykjavík, Engidalsskóla, Engjaskóla, Fellaskóla, Hofsstaðaskóla, Klébergsskóla, Kópavogsskóla, Krikaskóla, Landakotsskóla, Lindaskóla og Selásskóla.

Hægt er að láta vita í móttöku ef barnið er sérstaklega viðkvæmt og þarf meira næði í bólusetningunni. Börn sem hafa fengið Covid-19 þurfa að bíða í þrjá mánuði eftir greiningardag áður en þau þiggja bólusetningu. Börn sem eru lasin eða í sóttkví ættu að jafna sig áður en þau fara í bólusetningu. Börn sem hafa fengið bráðaofnæmi fyrir öðrum bóluefnum eða stungulyfjum ættu ekki að þiggja bólusetningu nema í samráði við ofnæmissérfræðing.

Ef foreldri barns hafnar bólusetningu eða barnið þarf að bíða vegna veikinda eða annars, þá má barnið fara heim úr skólanum þegar börn í árganginum eru boðuð í bólusetningu. Leikskólabörnum sem fædd eru 2017 verður boðin bólusetning þegar þau verða 5 ára.

Allar upplýsingar er að finna á vef Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×