Benzema með mark númer 300 í auðveldum sigri

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
EPA-EFE/Rodrigo Jimenez

Eftir tap í fyrsta deildarleik ársins þá sneri Real Madrid taflinu við og unnu góðan sigur á Valencia í spænsku úrvalsdeildinni, La liga, í kvöld. Sigur heimamanna var í raun aldrei í hættu og urðu lokatölur 4-1.

Fyrri hálfleikurinn var að mestu í eigu Real Madrid. Heimamenn voru betri á öllum sviðum og áttu hættulegri færi. Bæði átti Karem Benzema ágætis möguleika og Luka Modric skaut í þverslána. Svo brotnaði ísinn.

Benzema skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á 42. mínútu. Vítaspyrnan var talsvert umdeild en dómari leiksins mat það svo að brotið hefði verið á Casemiro innan teigs. Benzema skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni og lét mótmæli Valencia sem vind um eyru þjóta.

Markið var númer 300 á ferli Benzema hjá Real Madrid.

Vinicius Jr. skoraði svo annað mark leiksins og annað mark Madrídinga á 52. mínútu. Hann og Benzema léku skemmtilega saman í teignum áður en Vinicius slapp í gegn og skoraði af öryggi í hægra hornið. 2-0 og útlitið ekki gott fyrir Valencia.

Vinicius skoraði svo aftur á 61. mínútu. Marco Asensio átti þá skot að marki sem Jasper Cillesen varði en boltinn virtist samt ætla að svífa í markið. Vinicius tók enga séns og skilaði boltanum sjálfur yfir línuna. 3-0 og leikurinn í rauninni búinn.

Á 76. mínútu fengu Valencia vítaspyrnu. Goncalo Guedes fór á punktinn. Thibault Courtois varði vítið en Guedes náði frákastinu sjálfur, skoraði og minnkaði muninn í 3-1.

Ef það vaknaði einhver von þá slökkti Benzema þá von með öðru marki sínu á 88. mínútu. Ferland Mendy átti þá fyrirgjöf sem Benzema tók frábærlega á móti og hamraði í stöng og inn. 4-1.

Real Madrid er á toppnum með átta stiga forystu á Sevilla sem á þó tvo leiki til góða. Valencia siglir lygnan sjó og situr í níunda sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira