Erlent

Rússarnir mættir til Kasakstans og „röð og reglu aftur komið á“

Atli Ísleifsson skrifar
Frá átökum mótmælenda og lögreglu í Almaty í gær.
Frá átökum mótmælenda og lögreglu í Almaty í gær. AP

Rússneskar hersveitir eru mættar til Kasakstans að beiðni forseta Kasakstans eftir að til mikilla átaka kom milli lögreglu og mótmælenda. Forsetinn Kassym-Jomart Tokayev sagði í morgun að röð og reglu hefði aftur verið komið á í landinu.

Talsmaður kasakska innanríkisráðuneytisins segir að 26 „vopnaðir glæpamenn“ og átján lögreglumenn hafi látist í átökum þeirra í millum. Mótmæli höfðu staðið víða um land síðustu daga vegna hækkandi eldsneytisverðs.

Greint var frá því í gær að ríkisstjórnin hefði farið frá og að forsetinn hefði lýst yfir neyðarástandi víða um land vegna mótmælanna. Þá var víða slökkt á netsambandi til að torvelda allar aðgerðir mótmælenda.

Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld í Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi hafa hvatt bæði kasöksk yfirvöld og mótmælendur að forðast það að beita ofbeldi.

BBC segir frá því að rúmlega þrjú þúsund manns hafi verið handteknir í aðgerðum lögreglu, en búið er að koma upp sjötíu eftirlitsstöðvum lögreglu á vegum víða um land.

Tokayev leitaði til öryggisbandalagsins CSTO um aðstoð eftir að mótmælin mögnuðust, en auk Kasaka eiga Rússar, Hvít-Rússar, Tadsíkar og Armenar aðild að bandalaginu. 

Segir að Rússar hafi sent 2.500 hermenn til að aðstoða kasöksk yfirvöld í baráttunni við mótmælendur og er búist við að þeir verði í Kasakstan í einhverja daga eða jafnvel vikur.


Tengdar fréttir

Rússneskar hersveitir sendar til Kasakstan vegna mótmælanna

Rússneskar hersveitir verða sendar til Kasakstan til að aðstoða við að koma á frið í landinu. Forsetinn Kassym-Jomart Tokayev hefur óskað eftir hjálp frá CSTO, hernaðarbandalagi Rússlands og fimm fyrrum sovétríkja, til að takast á við mótmælaöldu sem nú gengur yfir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×