Fótbolti

Fyrrum dýrasti leik­maður í sögu Brig­hton hættur að­eins þrí­tugur að aldri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davy Pröpper í leik gegn Arsenal á síðustu leiktíð.
Davy Pröpper í leik gegn Arsenal á síðustu leiktíð. EPA-EFE/Mike Hewitt

Knattspyrnumaðurinn Davy Pröpper hefur lagt skóna á hilluna aðeins þrítugur að aldri. Hann sagði gleðina einfaldlega ekki lengur til staðar og er því hættur knattspyrnuiðkun.

Hinn þrítugi Pröpper lék með Vitesse, PSV og Brighton & Hove Albion á ferli sínum ásamt því að spila 19 A-landsleiki fyrir Holland. Sumarið 2017 gekk hann í raðir Brighton fyrir metfé er félagið var nýliði í ensku úrvalsdeildinni.

Hann var lykilmaður er Brighton hélt sæti sínu í deildinni ár eftir ár. Eftir að kórónuveiran skall á og öllu var skellt í lás í Englandi virðist sem hafi farið að halla undanfæti hjá Pröpper.

Þó hann væri ekki að glíma við nein líkamleg meiðsli þá tók það verulega á hann að vera frá fjölskyldu og vinum. Hann gekk aftur í raðir PSV fyrir komandi tímabil og skrifaði undir tveggja ára samning.

Nú – 18 mánuðum áður en samningurinn rennur út – hefur leikmaðurinn fengið honum rift þar sem gleðin er einfaldlega ekki til staðar. Hann hafði vonast að eftir að heimkoman myndi gera fótboltann ánægjulegan á nýjan leik en það gekk ekki eftir.

„Ég finn fyrir miklum létti og veit þess vegna að ég tók rétt ákvörðum,“ sagði Pröpper í viðtali eftir að hafa tilkynnt að hann væri hættur.

Hann þakkaði PSV fyrir skilninginn og sagði að þó fótboltinn hefði gefið honum mörg ógleymanleg augnablik þá væri nú kominn tími til að einbeita sér að öðrum hlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×