Erlent

Út­lit fyr­ir hert­ar sótt­varn­a­regl­ur á Ten­er­if­e

Samúel Karl Ólason skrifar
Ferðamenn á Norte-Ciudad de La Laguna flugvellinum á Tenerife.
Ferðamenn á Norte-Ciudad de La Laguna flugvellinum á Tenerife. EPA/Carlos de Saa

Útlit er fyrir að Tenerife í Kanaríeyjum verði sett á fjórða og hæsta viðbúnaðarstig vegna Covid-19 á næstu dögum. Við það herðast reglurnar varðandi hvað má gera á eyjunni, hve margir mega koma saman og hvar.

Í frétt Canarian Weekly segir viðmiðin sem yfirvöld notast við ákvarðanatöku varðandi viðbúnaðarstig snúi meðal annars að innlögnum á sjúkrahús og gjörgæslu.

Miðað við þau viðmið er talið að yfirvöld á Tenerife hækki viðbúnaðarstigið á næstu dögum. Mikill fjöldi Íslendinga eru á Tenerife þessa dagana.

Í héraðsmiðlinum Diario de Avisos segir að þriðja stigs viðbúnaður sé einnig á Gran Canaria og Fuerteventura. Aðrar eyjur Kanaríeyja eru á öðru stigi.

Færri komast að

Á fjórða stigi mega færri sitja saman bæði inni á veitingastöðum og krám en einnig úti. Á útisvæðum má hleypa að þriðjungi leyfilegs hámarksfjölda, í stað helmings á þriðja stigi, en hafa að hámarki sex við hvert borð, eins og á þriðja stigi.

Innandyra fer hámarksfjöldinn úr þriðjungi leyfilegs hámarksfjölda í fjórðung. Enn mega sex sitja við hvert borð.

Heilsulindum, sánum og slíku verður lokað og sundlaugargestum fækkað í þriðjung hámarksfjölda. Reglurnar varðandi baðstrendur taka ekki breytingum á milli stiga og verður enn miðað við helming hámarksfjölda og að hámarki fjóra í hverjum hóp.

Þá verður miðað við þriðjung hámarksnotenda í almenningssamgöngum og er þar grímuskylda.

Dans er áfram bannaður og hótel mega hafa um 75 prósent hámarksfjölda utandyra en einungis 25 prósent innandyra.

Áhugasamir geta kynnt sér reglur mismunandi stiga á Tenerife hér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.