Erlent

Þing­kona bönnuð á Twitter vegna rangra upp­lýsinga um Co­vid

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Marjorie Taylor Greene sakar Twitter um ritskoðun og hlutdeild í „kommúnískri byltingu.“
Marjorie Taylor Greene sakar Twitter um ritskoðun og hlutdeild í „kommúnískri byltingu.“ AP/J. Scott Applewhite

Bandaríska þingkonan Marjorie Taylor Greene hefur verið bönnuð á samfélagsmiðlinum Twitter, eftir að hafa ítrekað brotið reglur miðilsins um falsfréttir í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Greene hefur sagt bannið gegn sér til marks um að Twitter sé „óvinur Bandaríkjanna.“

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Greene hafi fjórum sinnum verið bönnuð tímabundið á miðlinum, en nú sé um að ræða ótímabundið bann. Bannið kom í kjölfar þess að Greene tísti í gær um „ótrúlega mikinn fjölda dauðsfalla í tengslum við bólusetningar,“ sem á ekki við rök að styðjast.

Um var að ræða persónulegan reikning þingkonunnar en opinber reikningur hennar, sem haldið er úti af starfsfólki hennar og er lítið notaður er enn uppi.

Í yfirlýsingu frá Twitter segir talsmaður fyrirtækisins að reikningi Greene hefði verið kippt úr sambandi fyrir ítrekuð brot gegn skilmálum fyrirtækisins um rangar um upplýsingar sem varða kórónuveirufaraldurinn. Samkvæmt skilmálunum er fólk bannað ótímabundið eftir að hafa gerst brotlegt í fimmta skipti, líkt og staðreyndin er í tilfelli Greene.

Sakar Twitter um ritskoðun og kommúnisma

Greene hefur ekki tekið banni Twitter þegjandi og hljóðlaust. Í langri yfirlýsingu sem hún gaf frá sér á samfélagsmiðlinum Telegram sagði hún að samfélagsmiðlar „gætu ekki komið í veg fyrir að sannleikanum yrði dreift vítt og breitt.“

Síðast braut Greene gegn skilmálum Twitter í ágúst, þegar hún sagði að bóluefni gegn Covid-19 væru að bregðast og hvatti eftirlitsstofnanir til þess að samþykkja ekki fleiri tegundir bóluefna.

Þá sakaði hún Twitter um að vera handbendi ótilgreindra óvina Bandaríkjanna í „kommúnískri byltingu.“

Sektuð fyrir andóf gegn Covid-aðgerðum

Greene er mikill og hávær stuðningsmaður Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hann var bannaður af Twitter í kjölfar árásar stuðningsmanna hans á þinghús Bandaríkjanna í janúar á síðasta ári. Fram að því hafði hann notað miðilinn mikið.

Síðan þá hafa Trump og stuðningsmenn hans ítrekað sakað Twitter um ritskoðun og Trump höfðað mál til þess að fá reikning sinn á miðlinum virkjaðan á ný, án árangurs.

Líkt og gefur að skilja er Greene mikill andstæðingur hvers konar aðgerða til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Hún hefur ítrekað dregið virkni bóluefna í efa og verið sektuð fyrir að fylgja ekki reglum Bandaríkjaþings í tengslum við faraldurinn, meðal annars fyrir að vera ekki með grímu í þingsal.

Hún hefur einnig haldið því fram að víðtækt kosningasvindl hafi haft áhrif á niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2020, þar sem Joe Biden vann sigur á Trump, sem þá var forseti. Hún hefur ekki fært sönnur á þær fullyrðingar sínar, frekar en aðrir sem hafa haldið því sama fram, þar á meðal Trump sjálfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×