Innlent

Her­bergjum far­sóttar­húsa fjölgar um hundrað á morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gylfi Þór er forstöðumaður farsóttarhúsanna.
Gylfi Þór er forstöðumaður farsóttarhúsanna. Vísir/Vilhelm

„Það má segja að við förum á fullri ferð inn í nýja árið,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, í samtali við fréttastofu. Um hundrað manns eru nú á biðlista eftir því að komast í einangrun á farsóttarhúsi, en á morgun bætast við hundrað herbergi.

„Við erum búin að vera með helminginn af Hótel Natura og tökum við hinum helmingnum frá og með morgundeginum,“ segir Gylfi Þór. Þar með bætast við um hundrað herbergi sem farsóttarhúsin hafa yfir að ráða og geta hýst þeim mun fleiri Covid-smitaða í einu.

Á miðvikudaginn er svo ráðgert að við bætist 80 herbergi til viðbótar. Gylfi segir að biðlistar eftir plássum séu enn langir.

„Við erum búin að vera að hringja út og koma fólki fyrir, þannig að biðlistinn eftir gærdaginn taldi hundrað.“

Þegar fólk greinist með Covid-19 hér á landi fær það sendan hlekk með spurningum sem því er gert að svara, til að sjá hvort fólk geti verið í einangrun annars staðar en á farsóttarhúsi. Í kjölfarið sé hringt í þá sem telja sig ekki geta verið annars staðar, og gengið úr skugga um það.

Um 250 manns dvelja nú á farsóttarhúsi og fleiri á leiðinni þangað í kvöld, þar er um að ræða fólk sem greindist í sýnatöku í dag eða í gær.

Verða að forgangsraða inn

Gylfi Þór segir að forgangsraða þurfi í húsin sem stendur, enda takmarkað pláss.

„Við verðum að taka að okkur ferðamenn, til dæmis, sem eru á leið úr landi og hafa þar af leiðandi ekki í nein önnur hús að venda. Það sama gildir um heimilislaust fólk, jaðarhópa og fólk sem er að útskrifast af Landspítalanum og er ekki alveg treystandi til að vera heima við,“ segir Gylfi.

Hann segir þó að aldrei hafi sú staða komið upp að vísa hafi þurft fólki sem þegar hafði fengið inn á farsóttarhúsi frá, í nafni forgangsröðunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×