Innlent

Heilsu­­gæslan bregst við á­bendingum um­­­boðs­­manns um sýna­töku á börnum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Egill

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur brugðist við ábendingum sem bárust frá umboðsmanni barna vegna framkvæmdar PCR-sýnatöku á börnum.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna sendi forstjóra heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu bréf fyrir helgi þar sem fram kemur að umboðsmanni hafi borist fjölmargar ábendingar varðandi framkvæmd PCR sýnatöku á börnum.

Kvartað er undan því að ung börn þurfi oft að bíða í mjög löngum biðröðum eftir sýnatöku. Þá segir að umhverfið á Suðurlandsbraut sé ekki barnvænt og taki ekki mið af þörfum þeirra. Auk þess sem þeir starfsmenn sem taki sýni af börnum séu ekki heilbrigðisstarfsmenn og hafi ekki fengið þjálfun í samskiptum við börn.

Forstjóri heilsugæslunnar segir að verið sé að vinna í því að bregðast við þessum ábendingum.

„Í sambandi við það að hafa fagaðila þá höfum við alltaf okkar reyndasta fólk til þess að taka sýni úr börnum. Svo erum við með aðstöðu þar sem hægt er að fara með börn og taka sýni úr þeim þannig að þau þurfi ekki að vera innan um aðra, sá möguleiki er fyrir hendi og það er hægt að nýta hann betur,“ sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá stendur til þess að tryggja að börn standi ekki lengi í biðröð.

„Það er sérstaklega gert núna að við erum með einn til tvo aðila sem eru utan húss þegar það er biðröð og þá sækjum við börnin og bjóðum þeim að koma fyrir framan. Sérstaklega yngri börnin. En við erum fyrst að vinna í því að það verði ekki biðröð eins og sést hérna núna núna. Það er með breyttu skipulagi innan húss þá eru biðraðirnar mjög litlar þrátt fyrir að mörg sýni séu tekin.“

Þannig að á næstu dögum má maður sjá minni raðir? 

„Já það er algjörlega okkar markmið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×