Erlent

Tígur í bráðri út­rýmingar­hættu skotinn í dýra­garði í Flórída

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tígurinn Eko var átta ára gamall.
Tígurinn Eko var átta ára gamall.

Átta ára malasískur tígur var skotinn í Naples dýragarðinum í Flórída í gær eftir að hafa bitið í handlegg eins starfsmanna garðsins. Lögregla reyndi að fá tígurinn til að sleppa manninum en neyddist til að skjóta hann þegar það gekk ekki.

Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, vann við hreinsistörf í dýragarðinum og er talinn hafa farið yfir girðingu og stungið höndinni inn um aðra til að klappa tígrinum eða gefa honum að éta.

Dýragarðurinn var lokaður þegar atvikið átti sér stað.

Lögreglumaðurinn sem kom fyrst á staðinn freistaði þess að fá tígurinn til að sleppa manninum með því að sparka í girðinguna en án árangurs. Hann skaut þá á dýrið, sem var svæft í kjölfarið fyrir skoðun. Seinna var tilkynnt að það hefði drepist.

Maðurinn var alvarlega slasaður og fluttur á sjúkrahús.

Tígurinn, sem nefndist Eko, var fluttur í garðinn í Flórída árið 2019 en átti áður heima í Woodland Park Zoo í Seattle. Malasíski tígurinn er í bráðri útrýmingarhættu en villt fullorðin dýr eru talin aðeins um 80 til 120.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×