Fótbolti

Lazio blandar sér í baráttuna um Albert

Sindri Sverrisson skrifar
„Þennan, takk!“ gæti Maurizio Sarri verið að segja, ef marka má frétt La Gazzetta dello Sport.
„Þennan, takk!“ gæti Maurizio Sarri verið að segja, ef marka má frétt La Gazzetta dello Sport. Samsett/Getty

Útlit er fyrir að landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson muni hafa úr áhugaverðum kostum að velja nú þegar hálft ár er þar til að samningur hans við hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar rennur út.

Samkvæmt Gazzetta dello Sport er ítalska félagið Lazio með Albert í sigtinu nú þegar félagaskiptaglugginn opnast í janúar. Áður höfðu skoskir fjölmiðlar greint frá því að skoski risinn Celtic væri á höttunum eftir Alberti.

Hið fornfræga lið Lazio leikur nú undir stjórn hins keðjureykjandi Maurizio Sarri, sem áður hefur verið hjá Juventus, Chelsea og Napoli.

Lazio hafnaði í 6. sæti á síðustu leiktíð í ítölsku A-deildinni og er í 8. sæti nú þegar tímabilið er hálfnað, þó aðeins þremur stigum frá 5. sætinu sem Juventus situr í.

Gazzetta dello Sport greindi frá því að raunar væru tveir Guðmundssynir á blaði hjá Lazio, Albert og Gabriel, en tók fram að þeir væru ekki skildir og ekki einu sinni samlandar. Sá síðarnefndi er sænskur bakvörður Lille í Frakklandi.

Albert er þessa dagana í jólafríi í Dúbaí og nýtur þar lífsins með fjölskyldu sinni sem nú er útlit fyrir að flytji frá Hollandi á nýju ári.

Albert, sem er 24 ára, hefur spilað 29 A-landsleiki og skorað í þeim sex mörk. Hann fór ungur til Hollands og gekk í raðir PSV Eindhoven en var seldur til AZ sumarið 2018. Fyrir AZ hefur Albert, samkvæmt Soccerway, skorað 17 mörk í 72 deildarleikjum.

Hann skoraði tvö mörk, eða nánast þrennu, í 4-1 sigri gegn Willem II rétt fyrir jól og hefur því skorað fjögur mörk í 17 deildarleikjum fyrir AZ sem er í 5. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×