Enski boltinn

Rifjaði upp kjarnorkudrifið æðiskast Fergusons: „Hann gæti verið njósnari!“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þarna lá ólíkt betur á Sir Alex Ferguson en þegar hann lét Eric Steele (lengst til vinstri) heyra það fyrir að koma með, að því hann hélt, óboðinn gest á æfingu Manchester United.
Þarna lá ólíkt betur á Sir Alex Ferguson en þegar hann lét Eric Steele (lengst til vinstri) heyra það fyrir að koma með, að því hann hélt, óboðinn gest á æfingu Manchester United. getty/John Peters

Í viðtali við The Athletic rifjaði Eric Steele, fyrrverandi markvarðaþjálfari Manchester United, þegar hann fékk hárblásarameðferðina frá Sir Alex Ferguson á sínum tíma.

Ferguson átti það til að láta leikmenn sína heyra það ansi hressilega og þjálfarar United voru heldur ekki undanskildir eins og Steele fékk að kynnast.

Forsagan er sú að Steele kom með markvarðaþjálfara ástralska landsliðsins, Tony Franken, á æfingu United eftir að hafa fengið leyfi fyrir því frá Ferguson.

Þegar á æfinguna var komið og Ferguson sá einhvern sem hann kannaðist ekki við lét hann Steele heyra það og virtist hafa steingleymt því að hafa sjálfur samþykkt heimsókn Franksens.

„Ég var að æfa föst leikatriði og næsta sem ég veit er að stjórinn horfir á okkur og öskrar: hver í fjandanum er þetta. Allir leikmennirnir sneru sér við,“ sagði Steele sem tjáði Ferguson að Franken væri gestur hans.

„Hann ætti ekki að vera hér! Hann gæti verið njósnari! Ég fékk að heyra það. Þetta var ekki bara hárblásari. Þetta var kjarnorkudrifið. Hann var búinn að gleyma að hann hafði gefið leyfi og hélt að ég hefði komið með njósnara.“

Steele bað Franken vinsamlegast um að fara inn í mötuneytið eftir æðiskast Fergusons og hélt áfram með æfinguna.

Ferguson rann fljótt reiðin og í hádegismat eftir æfinguna bað hann Franken afsökunar og var hinn almennilegasti að sögn Steeles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×