Enski boltinn

Clattenburg: Andy Robertson er heppinn að geta gengið eftir tæklingu Kane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Tierney gaf Andrew Robertson rautt spjald í seinni hálfleik en hefði líka átt að lyfta því rauða á Harry Kane í þeim fyrri.
Paul Tierney gaf Andrew Robertson rautt spjald í seinni hálfleik en hefði líka átt að lyfta því rauða á Harry Kane í þeim fyrri. AP/Frank Augstein

Fyrrum toppdómari í ensku úrvalsdeildinni gagnrýndi dómgæsluna í leik Tottenham og Liverpool um síðustu helgi og þá sérstaklega það að enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane hafi fengið að halda áfram leik eftir sólatæklingu sína á bakvörð Liverpool Andy Robertson.

Harry Kane kom fljúgandi inn í tæklinguna með takkana á undan sér og fór beint í Andy Robertson sem hafði tekið boltann. Paul Tierney ákvað að gefa Kane bara gult spjald fyrir brotið við lítinn fögnuð Liverpool manna. Það sem meira er að Varsjáin var sammála því að reka Kane ekki útaf. Ein aðalstæðan væri að Robertson hefði hoppað upp úr tæklingunni.

Robertson sjálfur fékk beint rautt spjald seinna í leiknum eftir að Varsjáin skoðaði brot hans á Emerson Royal.

„Ég tel að tæklingin hjá Kane sé verri en sú hjá Robertson,“ sagði Mark Clattenburg í útvarpsviðtali í þættinum Monday Night Club á BBC Radio 5 Live.

„Ég hef áhyggjur eftir að hafa heyrt það að Robertson hefði þurft að vera með fótinn á jörðinni. Ef það hefði verið þá hefði hann ekki gengið um þessi jól,“ sagði Clattenburg.

„Ef þú heldur því fram að það séu ekki skýr og greinilega mistök að gefa Kane kki rauða spjaldið þá ertu ekki að sinna þínu starfi rétt,“ sagði Clattenburg.

Ég held að við dómararnir séum stundum sekir um að þekkja reglur leiksins betur en við skiljum leikinn sjálfan. VAR má hins vegar ekki klikka á þessu. Dómarar geta misst af því enda hafa þeir aðeins sekúndubrot. Varsjáin hefur öll sjónarhornin og hún sér hvert takkar Kane fóru,“ sagði Clattenburg.

„Það nýtt í mínum eyrum að fóturinn (hans Robertson) þurfi að vera á jörðinni. Ef fóturinn er á lofti með takkana á undan þá er þetta glannalegt og hann skutlaði sér í tæklinguna. Í mínum augum þá setti hann andstæðing sinn í hættu,“ sagði Clattenburg.

„Robbo er heppin að geta gengið í dag. Við ættum að skilja betur fótboltamenn og af hverju hann er ekki að fara skilja fótinn sinn eftir á jörðinni í þessari stöðu. Hann vill ekki fótbrotna og setja feril sinn í hættu,“ sagði Clattenburg.

Clattenburg var dómari í ensku úrvalsdeildinni í þrettán ár frá 2004 til 2017. Hann er líka á því að enska úrvalsdeildin eigi að birta samtöl dómara og VAR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×