Enski boltinn

Lið þurfa ekki að mætast aftur verði jafnt í FA bikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aston Villa heimsækir Manchester United í þriðju umferð FA bikarsins, en leikið verður til þrautar.
Aston Villa heimsækir Manchester United í þriðju umferð FA bikarsins, en leikið verður til þrautar. Simon Stacpoole/Getty Images

Enska knattspyrnusambandið hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að lið þurfi ekki að mætast aftur verði jafnt í þriðju eða fjórðu umferð FA bikarsins í ár til að koma í veg fyrir of mikið leikjaálag.

Þess í stað verður leikið til þrautar í þessum umferðum í einni viðureign, en í fyrra var þessi háttur hafður á alla keppnina.

Áður fyrr hafa lið þó þurft að mætast að nýju ef viðureignin endar með jafntefli. Eftir að fjölda leikja var frestað á seinustu dögum vegna stöðu kórónuveirufaraldursins á Englandi, og í ensku deildunum, hefur verið ákveðið að liðin mætist aðeins einu sinni í þessum umferðum til að koma í veg fyrir uppsafnað leikjaálag.

Öll 44 liðin í efstu tveim deildum Englands koma inn í FA bikarinn í þriðju umferð keppninnar og bætast þá við þau tuttugu lið úr neðri deildunum sem hafa komist í gegnum niðurskurðinn.

Þriðja umferð FA bikarsins verður spiluð dagana sjöunda til tíunda janúar, en þar eru þrír úrvalsdeildarslagir á dagskrá. Leicester tekur á móti Watford, West Ham tekur á móti Leeds og Manchester United fær Steven Gerrard og lærisveina hans í Aston Villa í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×