Innlent

Grunur um brot á sótt­varnalögum í mið­bænum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð í ströngu í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stóð í ströngu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan stóð í ströngu í gærkvöldi og í nótt en 116 mál voru skráð á málaskrá. Þar af voru rúmlega tuttugu tilkynningar um hávaða. 

Afskipti voru höfð af starfsemi veitingastaðar í miðbænum rétt fyrir klukkan níu en grunur lék á um brot á reglum um lokun samkomustaða vegna samkomutakmarkana. Um klukkustund síðar hafði lögregla afskipti af starfsemi veitingastaðar í miðbænum af sömu ástæðu.

Þá hafði lögregla afskipti af tónleikahaldi í Vesturbænum klukkan hálf tíu í gærkvöldi en grunur lék á um brot á sóttvarnalögum.  Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölmargir voru handteknir, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna, en lögregla setti meðal annars upp eftirlitspóst í Garðabænum. 352 bifreiðar voru stöðvaðar við eftirlitið en þrír ökumenn voru handteknir grunaðir um ölvun við akstur.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í blokk í miðbænum, grunaður um eignaspjöll, en talið er að hann hafi brotið rúðu í stigagangi blokkarinnar.

Annar, í annarlegu ástandi, var handtekinn í miðbænum grunaður um innbrot en búið var að brjóta rúðu og þá fannst stormjárn á vettvangi.

Lögregla bárust þar að auki tvær tilkynningar um búðarhnulp, bæði á Höfðabakka og í Grafarvogi. Á Höfðabakkanum hafði maður sett vörur fyrir rúmlega þrjátíu þúsund krónur í bakpoka sinn en í Grafarvogi voru afskipti höfð af manni sem hafði reynt að komast út úr matvöruverslun með fulla körfu af vörum úr versluninni.

Þá hafði lögreglan afskipti af konu sem var grunuð um þjófnað úr apóteki en hún hafði einnig reynt að komast yfir spritt og sótthreinsivökva, í því skyni að drekka það, segir í dagbók lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×