Fótbolti

KA fær nýjan heima­völl með gervi­grasi eftir þrjú ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frá leik KA og Breiðabliks á Greifavelli síðasta sumar.
Frá leik KA og Breiðabliks á Greifavelli síðasta sumar. Vísir/Óskar Ófeigur Jónsson

Samkvæmt fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar mun KA leika heimaleiki sína á nýjum gervigrasvelli eftir þrjú ár. Fjárhagsáætlunin var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær.

Frá þessu var greint á Akureyri.net fyrr í dag. Þar kemur fram að á næstu þremur árum, frá 2022 til 2025 verði lagðar 820 milljónir í félagssvæði KA.

„Lagður verður nýr gervigrasvöllur og byggð stúka vestan við íþróttahús KA. Það verður keppnisvöllur knattspyrnuliðs félagsins. Þá verður skipt um gervigras á vellinum sunnan við KA-heimilið. Fram kom í máli bæjarfulltrúa í gær að Akureyrarvallarsvæðið við Glerárgötu væri mjög verðmætt byggingarland og mjög gott til þéttingu byggðar,“ segir í umfjöllun Akureyri.net.

Heimavöllur KA, Greifavöllur, hefur verið mikið í umræðunni undanfarin tímabil en hann kemur einkar illa undan vetri og hefur verið nær ónothæfur. Til að mynda þurfti KA að leika fjóra fyrstu heimaleiki sína á Dalvíkurvelli síðasta sumar. Þann 18. júlí lék liðið loks á Greifavelli.

KA endaði í 4. sæti Pepsi Max deildar karla á síðustu leiktíð.

Þá gæti Þór/KA mögulega spilað á vellinum en liðið hefur spilað á heimavelli Þórs undanfarin tímabil. Þór/KA endaði í 6. sæti Pepsi Max deildar kvenna á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×