Fótbolti

Segir líðan sína ekki hafa verið þannig að hún myndi hitta neinn á kaffihúsi

Sindri Sverrisson skrifar
Magnús Gylfason var í landsliðsnefnd KSÍ árið 2016 og því með Ragnari Sigurðssyni og öðrum í íslenska landsliðinu á EM sama ár. Lögregla var kölluð að dvalarstað Ragnars á Íslandi daginn eftir að árangrinum á EM var hafnað.
Magnús Gylfason var í landsliðsnefnd KSÍ árið 2016 og því með Ragnari Sigurðssyni og öðrum í íslenska landsliðinu á EM sama ár. Lögregla var kölluð að dvalarstað Ragnars á Íslandi daginn eftir að árangrinum á EM var hafnað. vísir/vilhelm

Fyrrverandi eiginkona Ragnars Sigurðssonar segir fullyrðingu Magnúsar Gylfasonar ranga um að hann hafi hitt þau Ragnar á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð að dvalarstað þeirra sumarið 2016, vegna gruns um heimilisofbeldi.

Konan segir jafnframt að Magnús hafi engar forsendur haft til að draga ályktanir um hennar líðan.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍSÍ til fjölmiðla þar sem segir að úttektarnefnd ÍSÍ hafi nú uppfært skýrslu sína varðandi þetta tiltekna atriði, í úttekt sinni á viðbrögðum KSÍ við ábendingum um kynferðislegt ofbeldi á árunum 2010 til 2021. Vildi nefndin koma eftirfarandi á framfæri:


„Fyrrverandi eiginkona A í máli sem fjallað er um í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ sem birtist í gær kveður rangt sem Magnús Gylfason segir um að hafa hitt hana og þáverandi eiginmann hennar á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð að dvalarstað þeirra vegna grunsemda um heimilisofbeldi. Hún hafi ekki hitt Magnús og A á kaffihúsi þennan dag né nokkurn annan og hún geti bent á fleiri en eitt vitni því til staðfestingar. Líðan hennar hafi heldur ekki verið með þeim hætti að hún væri að hitta neinn á kaffihúsi daginn eftir og Magnús hafi engar forsendur haft til að draga ályktanir um hennar líðan. Þá hafi hún heldur ekki hitt A næstu daga.“


Magnús segist mögulega hafa hitt parið síðar

Vísir hafði samband við Magnús og bar málið undir hann. Magnús kvaðst þá ekki muna nákvæmlega hvenær hann hefði hitt Ragnar og þáverandi eiginkonu hans á kaffihúsi, en það hefði hann þó sannarlega gert. Mögulega hafi það verið nokkrum dögum síðar en hann minnti.

Samkvæmt skýrslunni fékk Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, símhringingu eftir að lögreglan var kölluð að dvalarstað Ragnars, þar sem henni var greint frá málinu. Hún deildi þeim upplýsingum með Magnúsi og þáverandi formanni, Geir Þorsteinssyni. 

Í skýrslunni segir að KSÍ hafi ekki haft aðrar upplýsingar en að málið væri í farvegi hjá lögreglu og þar sem að það hefði átt sér stað utan landsliðsverkefnis hefði KSÍ litið svo á að það væri ekki í verkahring sambandsins heldur lögreglu að aðhafast frekar í málinu. Löngu síðar hefði sambandið fengið þær upplýsingar að kæra á hendur Ragnari hefði verið dregin til baka.

Lögregla var kölluð að dvalarstað Ragnars og þáverandi eiginkonu hans aðfaranótt 5. júlí, nóttina eftir að íslenska landsliðið kom heim af EM 2016 og var hyllt á Arnarhóli fyrir árangur sinn. Landsliðsmenn skemmtu sér margir hverjir fram á nótt og var Ragnar þeirra á meðal.

Það var svo á þriðja tímanum um nóttina sem lögregla var kölluð til. Nágranni hafði hringt í lögreglu vegna óláta úr íbúð Ragnars. Sá hafði hugað að þáverandi eiginkonu Ragnars sem hafði yfirgefið íbúðina á meðan Ragnar gekk berserksgang í íbúðinni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var Ragnar í miklu uppnámi og kastaði til húsgögnum í íbúðinni. Þegar lögregla mætti á vettvang var sjónvarpið á gólfinu, kaffivél sömuleiðis, för eftir hníf sem kastað var í vegg og íbúðin almennt í slæmu ástandi. Ragnar hafði yfirgefið íbúðina þegar lögreglu bar að garði.

Í skýrslu úttektarnefndar kemur fram að Magnús hafi greint nefndinni frá því að hann hefði hitt hjónin á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð til. Ragnar hefði þá greint honum frá því sem gerst hefði um nóttina og ekkert hefði bent til þess á þeim fundi, að sögn Magnúsar, að þáverandi eiginkona hans hefði sætt ofbeldi eða að hún hygðist leggja fram kæru á hendur Ragnars. 

Þessum málflutningi hefur eiginkonan þáverandi alfarið hafnað.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.