Sport

Leitaði til al­manna­tengils vegna gruns um heimilis­of­beldi lands­liðs­manns

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Geir Þorsteinsson var framkvæmdastjóri KSÍ frá 1997 til 2007 og formaður KSÍ 2007 til 2017. Hann er í dag framkvæmdastjóri ÍA.
Geir Þorsteinsson var framkvæmdastjóri KSÍ frá 1997 til 2007 og formaður KSÍ 2007 til 2017. Hann er í dag framkvæmdastjóri ÍA. Vísir/Daníel Þór

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, brást við upplýsingum um að lögregla hefði verið kölluð að dvalarstað landsliðsmanns vegna grunsemda um heimilisofbeldi með því að leita til almannatengils. Fyrrverandi eiginkona umrædds landsliðsmanns varð fyrir vonbrigðum með hvernig KSÍ tók á málinu.

Úttektarnefnd, sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skipaði til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð Knattspyrnusambands Íslands vegna kynferðisbrotamála sem tengst hafa landsliðsmönnum, gerir athugasemdir við þetta í nýrri skýrslu.

Fram hefur komið að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði landsliðsmanninn Ragnar Sigurðsson til rannsóknar í sjö vikur sumarið 2016 grunaðan um skemmdarverk og heimilisofbeldi í íbúð í Garðabæ. Ekki var lögð fram kæra í málinu.

Skýrslu nefndarinnar má sjá neðst í fréttinni.

Sjónvarp á gólfi og för eftir hníf í vegg

Íslenska landsliðið var nýkomið til landsins eftir Evrópumótið í Frakklandi og voru landsliðsmenn hylltir á Arnarhóli fyrir árangur sinn á mótinu. Landsliðsmenn skemmtu sér margir hverjir fram á nótt og var Ragnar þeirra á meðal.

Það var svo á þriðja tímanum um nóttina sem lögregla var kölluð að íbúð Ragnars og þáverandi eiginkonu hans. Nágranni þeirra í fjölbýlishúsi hafði hringt í lögreglu vegna óláta úr íbúð Ragnars. Sá hafði hugað að þáverandi eiginkonu Ragnars sem hafði yfirgefið íbúðina á meðan Ragnar gekk berserksgang í íbúðinni.

Geir Þorsteinsson brást við fregnum af meintu heimilisofbeldi landsliðsmannsins Ragnars Sigurðssonar með því að hafa samband við almannatengil.Vísir/vilhelm

Samkvæmt heimildum fréttastofu var Ragnar í miklu uppnámi og kastaði til húsgögnum í íbúðinni. Þegar lögregla mætti á vettvang var sjónvarpið á gólfinu, kaffivél sömuleiðis, för eftir hníf sem kastað var í vegg og íbúðin almennt í slæmu ástandi. Ragnar hafði yfirgefið íbúðina þegar lögreglu bar að garði.

Engin kæra og málið látið niður falla

Þáverandi eiginkona Ragnars lagði ekki fram kæru í málinu en samkvæmt heimildum lýsti hún atvikum þannig að Ragnar hefði tekið hana kverkataki og hrint henni í sófa. Skýrslur voru teknar af báðum aðilum við rannsókn málsins. Af eiginkonunni strax um nóttina en af Ragnari nokkrum dögum síðar.

Var málið látið niður falla um miðjan ágúst 2016 samkvæmt fjórðu málsgrein 52. greinar laga um meðferð sakamála. Þar segir:

„Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin.“

Ragnar og þáverandi eiginkona skildu árið 2018 eftir þriggja ára hjónaband. Hjónabandið var á fárra vitorði en þau bjuggu saman í Rússlandi hvar Ragnar spilaði sem atvinnumaður. Ragnar spilaði síðasta sumar með liði Fylkis í Pepsi-Max deildinni.

Klara fékk símtal og ræddi við Geir

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, ræddi þetta mál Ragnars við útteknarnefndina. Tjáði hún nefndinni, líkt og fram kemur í skýrslu, að hún hefði á sínum tíma hafa fengið símhringingu frá einstaklingi sem hefði greint henni frá því að lögreglan hefði verið kölluð að heimili Ragnars vegna óláta og gruns um heimilisofbeldi.

Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ.Vísir/Egill

Klara hefði deilt þessum upplýsingum með Geir Þorsteinssyni, þáverandi formanni KSÍ, Magnúsi Gylfasyni, þáverandi formanni landsliðsnefndar, og síðar Guðna Bergssyni þegar hann var tekinn við sem formaður. KSÍ hefði á sínum tíma ekki haft aðrar upplýsingar en að málið væri í farvegi hjá lögreglu. 

Þar sem málið hefði átt sér stað utan landsliðsverkefnis hefði KSÍ ekki litið svo á að það væri í verkahring sambandsins heldur lögreglu að aðhafast frekar í málinu. KSÍ hefði löngu síðar fengið þær upplýsingar að kæran á hendur Ragnari hefði verið dregin til baka.

Hitti Ragnar og þáverandi eiginkonu á kaffihúsi

Magnús Gylfason, sem árið 2016 sat í landsliðsnefnd A-landsliðs karla en var þá hvorki starfsmaður KSÍ né í stjórn sambandsins, greindi úttektarnefndinni frá því að hann hefði hitt Ragnar og eiginkonu hans á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð til. 

Ragnar hefði þá greint honum frá því sem hefði gerst um nóttina. Ekkert hefði bent til þess á þeim fundi að eiginkona Ragnars hefði sætt ofbeldi eða að hún hygðist leggja fram kæru á hendur Ragnari.

Magnús Gylfason, fyrrverandi formaður landsliðsnefndar, á æfingu karlalandsliðsins á HM í Rússlandi 2018.Vísir/Vilhelm

Geir Þorsteinsson, sem á þessum tíma var formaður KSÍ, kvaðst í skýringum sínum til nefndarinnar minnast samtals við Magnús Gylfason í landsliðsnefnd um leikmann sem virtist eiga í erfiðleikum í sínu sambandi og að lögreglan hefði verið kölluð til. 

Geir kvað málið aldrei hafa verið „formlega á borði KSÍ og um einkalíf leikmannsins var að ræða“. Þá hafi það ekki tengst verkefni KSÍ að því er hann best vissi.

Eiginkonan fyrrverandi varð fyrir vonbrigðum með KSÍ 

Í skýringum til nefndarinnar kvað Geir þó „vel kunna að vera“ að hann hafi bent Magnúsi á að nefndur almannatengill gæti hjálpað í tengslum við umfjöllun fjölmiðla og að hann hafi rætt við almannatengilinn, það sem hann hafi gert það „nokkuð reglulega þegar málefni tengd KSÍ voru til umfjöllunar í fjölmiðlum“.

Úttektarnefndin fékk við athugun sína upplýsingar og gögn sem sýna fram á að félag sem almannatengillinn starfaði hjá sinnti verkefnum fyrir KSÍ á þessum tíma og fékk greiðslur frá sambandinu í umræddum mánuði. 

Við athugun sína ræddi nefndin við fyrrverandi eiginkonu Ragnars sem lýsti vonbrigðum sínum með hvernig KSÍ hefði tekið á þessu máli.

Úttektarnefndin telur í skýrslu sinni rétt að gera athugasemd við að Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður KSÍ, hafi árið 2016 leitað til almannatengils í kjölfar þess að hann frétti af málinu. 

Í ljósi skýringa þáverandi formanns um að málið hafi verið einkamál leikmannsins og ekki tengst verkefnum KSÍ fær nefndin ekki séð hvert hafi verið tilefni þess að almannatengill hafði samskipti við fjölmiðla um málið fyrir hönd KSÍ.

Guðni með tilkynningu um brot gegn tengdadóttur samstarfsmanns

Nefndin kynnti allar helstu niðurstöður sínar í dag. Gerði nefndin athugasemdir við upplýsingar sem Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, veitti fjölmiðlum og almenningi í ágúst síðastliðnum um vitneskju sambandsins af frásögnum um ofbeldi. Á sama tíma hafi Guðni verið með á borði tilkynningu frá samstarfsmanni sínum á skrifstofu KSÍ um alvarlegt kynferðisofbeldi gagnvart tengdadóttur starfsmannsins.

Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson voru nýbyrjaðir að spila fyrir A-landslið karla árið 2010 þegar meint kynferðisbrot átti sér stað.Vísir

Málið sem nefndin vísar til er kynferðisbrotamál frá árinu 2010 hvar tengdadóttir starfsmanns KSÍ kærði Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliða og Eggert Gunnþór Jónsson, fyrrverandi landsliðsmann og leikmann FH í efstu deild karla, fyrir kynferðisbrot. Málið er til rannsóknar nú ellefu árum síðar og hafa leikmennirnir gefið skýrslu. Þeir neita sök.

Nefndin segir yfirlýsingar Guðna heldur hafa ekki samræmst vitneskju um eldri tilkynningu um kæru á hendur öðrum leikmanni vegna ofbeldis. Er þar vísað til máls Kolbeins Sigþórssonar sem tvær konur saka um ofbeldi á skemmtistaðnum B5 haustið 2017. Kolbeinn greiddi konunum 1,5 milljón króna og Stígamótum þrjá milljónir króna vorið 2018. 

Hann hefur þó neitað að hafa beitt ofbeldi en sagt hegðun sína ekki hafa verið til fyrirmyndar umrætt kvöld. Konurnar er á öðru máli og segja Kolbein hafa beitt þær ofbeldi.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

KSÍ hafi mikið svigrúm varðandi val á landsliðsmönnum

Úttektarnefnd ÍSÍ, sem var falið að fjalla um frammistöðu KSÍ í málum tengdum kynferðisofbeldi, skilaði sinni skýrslu í dag. Rán Ingvarsdóttir lögmaður segir að KSÍ hafi mikið svigrúm varðandi val á landsliðsmönnum.

KSÍ vissi af fjórum málum | Guðni fékk tilkynningu frá starfsmanni KSÍ um kynferðisofbeldi

Úttektarnefnd ÍSÍ, sem var falið að fjalla um frammistöðu KSÍ í málum tengdum kynferðisofbeldi, skilaði sinni skýrslu í dag. Þar segir meðal annars að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að innan KSÍ hafi verið vitneskja um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir tengdir sambandinu hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi.

Kynntu úttekt á viðbrögðum KSÍ vegna kynferðisbrotamála

Óháð nefnd ÍSÍ kynnti niðurstöður úttektar á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands á blaðamannafundi í dag. Fundurinn var í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.