Erlent

Atvinnurekendur í New York skikkaðir til að krefjast bólusetningar starfsmanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það eru ekki allir á eitt sáttir um bólusetningarskylduna.
Það eru ekki allir á eitt sáttir um bólusetningarskylduna. epa/Justin Lane

Borgaryfirvöld í New York hafa ákveðið að allir atvinnurekendur í borginni verði að krefjast þess að starfsmenn þeirra þiggi bólusetningu og séu bólusettir frá og með 27. desember næstkomandi.

Bólusetningarkröfur eru óvíða jafn strangar og í New York en þar hafa starfsmenn borgarinnar þegar verið skikkaðir til að þiggja bólusetningu. Mörg ríki gera einhverja kröfu um bólusetningar ákveðinna starfsmanna, til að mynda í heilbrigðisþjónustu en bólusetningaskylda starfsmanna einkafyrirtækja er mun fátíðari og umdeildari.

Stjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta hafði freistað þess að koma á bólusetningaskyldu starfsmanna allra fyrirtækja með fleiri en 100 starfsmenn en þær fyrirætlanir hafa verið stöðvaðar af dómstólum, að minnsta kosti um sinn.

Bill De Blasio, borgarstjóri New York-borgar, segist hins vegar gera ráð fyrir að nýju reglurnar í borginni muni standast áhlaup fyrir dómstólum en þær munu ná til 184.000 fyrirtækja í borginni.

Til viðbótar við ofangreindar breytingar stendur til að krefjast þess af öllum 12 ára og eldri að þeir framvísi sönnun um að þeir séu fullbólusettir áður en þeir fá að snæða innandyra á veitingastöðum og sækja sýningar. Þá verða foreldrar barna á aldrinum 5 til 11 ára að sýna fram á að þau hafi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.