Erlent

Segir of seint að bregðast við omíkron með tak­mörkunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bretar hafa gripið til þess ráðs að krefja ferðalanga um neikvæð Covid-próf sem tekin eru áður en haldið er til landsins. Aðgerðirnar taka gildi aðfaranótt þriðjudags.
Bretar hafa gripið til þess ráðs að krefja ferðalanga um neikvæð Covid-próf sem tekin eru áður en haldið er til landsins. Aðgerðirnar taka gildi aðfaranótt þriðjudags. Hollie Adams/Getty

Nýjustu breytingar breskrar stjórnvalda á ferðatakmörkunum til landsins, sem gripið hefur verið til í því skyni að stemma stigu við útbreiðslu omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar þar í landi, koma of seint að mati vísindamanns sem ráðleggur ríkisstjórninni við sóttvarnaaðgerðir.

Mark Woolhouse, sem er prófessor í faraldsfræði, líkir nýjustu aðgerðum breskra stjórnvalda við að „loka hesthúshurðinni þegar hesturinn er hlaupinn á brott.“

Breytingarnar, sem taka gildi aðfaranótt þriðjudags, felast einna helst í því að ferðalangar yfir tólf ára aldri þurfa nú að framvísa neikvæðu PCR-prófi sem tekið var áður en haldið var til Bretlands. Þá hefur Nígería bæst við á svokallaðan rauðan lista, en ferðalangar frá löndum á listanum þurfa að sæta tíu daga sóttkví við komuna til landsins. Ísland er ekki á rauðum lista Breta.

Innflut smit ekki vandamálið

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Woolhouse að sannarlega hafi það áhrif að fleiri omíkron-smitaðir komi til landsins. Hins vegar verði það samfélagssmit sem verði helsti drifkraftur næstu bylgju veirunnar.

Hann bætti því við að fjöldi omíkron-smita í Bretlandi væri ekki hár þessa stundina, og sagðist telja að fjöldi þeirra sem bæru afbrigðið nú væri talinn í „hundruðum frekar en þúsundum.“

Hins vegar sagði hann afbrigðið dreifast fremur hratt um Bretland og benti á að ef fram héldi sem horfði þar í landi, sem og í Suður-Afríku þar sem afbrigðið greindist fyrst, þá kynni afbrigðið að velta Delta-afbrigðinu úr sessi sem ráðandi afbrigði veirunnar víða um heim.

Lítið er vitað um omíkron-afbrigðið á þessari stundu en því hefur verið velt upp af vísindamönnum að það kunni að vera meira smitandi en fyrri afbrigði og að það eigi greiðari leið fram hjá þeirri vörn sem bóluefni veita. Þó hefur því einnig verið velt upp að afbrigðið valdi vægari veikindum en önnur afbrigði.

Vísindamenn hafa þó lagt áherslu á það, vegna þess hve nýtilkomið afbrigðið er, að það muni taka nokkurn tíma fyrir heiminn að átta sig á eiginleikum afbrigðisins. Í því samhengi nefndi Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, tímaramma upp á tvær til þrjár vikur nú fyrir helgi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.