Enski boltinn

Sagðist vita hvernig Chelsea vildi spila og á­kvað því að setja Ron­aldo á bekknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Michael Carrick ræðir við Cristiano Ronaldo áður en Portúgalinn kom inn á gegn Chelsea.
Michael Carrick ræðir við Cristiano Ronaldo áður en Portúgalinn kom inn á gegn Chelsea. Clive Rose/Getty Images

Það vakti mikla athygli er leikur Chelsea og Manchester United hófst að Cristiano Ronaldo var hvergi sjáanlegur á vellinum sjálfum. Portúgalska stjarnan hóf leik meðal varamanna og kom inn af bekknum í síðari hálfleik.

Annan leikinn í röð ákvað Michael Carrick, þjálfari Manchester United, að bekkja eina af stórstjörnum liðsins. Eftir að Ole Gunnar Solskjær var látinn taka poka sinn var ákveðið að Carrick myndi stýra liðinu þangað til annað kæmi í ljós.

Í mikilvægum leik gegn Villareal í Meistaradeild Evrópu ákvað Carrick að setja Bruno Fernandes á bekkinn, sá leikur vannst 2-0. Í gær, sunnudag, ákvað Carrick að setja Ronaldo á bekkinn.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en ef ekki hefði verið fyrir klaufalega tæklingu Aaron Wan-Bissaka í eigin vítateig hefðu gestirnir mögulega farið með öll þrjú stigin heim.

Er Carrick var spurður út í ástæðu þess að Portúgalinn hóf leik á varamannabekknum þá stóð ekki á svörum.

„Við komum hingað með leikplan, ég vissi nokkurn veginn hvernig Chelsea myndi spila og við vildum stöðva litlu sendingarnar sem þeir þræða inn á miðjuna til Jorginho og (Ruben) Loftus-Cheek. Við vorum með það á bakvið eyrað,“ sagði miðjumaðurinn fyrrverandi.

„Við vildum fríska aðeins upp á liðið, gera tvær til þrjár breytingar ásamt því að breyta taktíkinni okkar örlítið. Þetta var niðurstaðan og við vorum ekki langt frá því að næla í öll þrjú stigin,“ bætti Carrick við er hann ræddi við fjölmiðla eftir leik.

Þó Man Utd hafi legið til baka og að því virtist ætla að beita skyndisóknum þá var liðið töluvert duglegra að setja pressu á öftustu línu Chelsea heldur en gegn öðrum mótherjum sínum til þessa á leiktíðinni.

Alls unnu leikmenn gestanna boltann sex sinnum á síðasta þriðjungi vallarins. Liðið hefur aðeins einu sinni unnið boltann oftar á síðasta þriðjungi en það var í 4-1 sigrinum gegn Newcastle United í september.

Þó leikaðferð Carrick á Brúnni í Lundúnum sé töluvert frá því sem Ralf Rangnick – nýráðinn þjálfari Man Utd – vill sjá hjá sínum liðum er ljóst að þetta er ágætis byrjun. Nú er bara að bíða og sjá hvort það sé pláss fyrir Ronaldo í liði sem vill pressa mótherja sína jafn stíft og lið Rangnick eru vön að gera.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.