Innlent

Öllum frá há­á­hætt­u­svæð­um gert að fara í fimm daga sótt­kví

Samúel Karl Ólason skrifar
Búið er að ráðleggja fólki ekki að ferðast til svokallaðra hááhættusvæða, sem eru í sunnanverðri Afríku.
Búið er að ráðleggja fólki ekki að ferðast til svokallaðra hááhættusvæða, sem eru í sunnanverðri Afríku. Vísir/Vilhelm

Þeir sem koma til landsins frá svæðum sem skilgreind eru sem hááhættusvæði munu þurfa að fara í PCR-próf við komuna til landsins. Eftir það munu þau þurfa í fimm daga sóttkví og að því loknu annað PCR-próf.

„Þetta gildir um alla sem dvalið hafa á hááhættusvæði, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki eða með sögu um fyrri sýkingu af Covid-19,“ segir í yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Til hááhættusvæða teljast Botsvana, Esvatíní, Lesótó, Mósambík, Namibía, Simbabve og Suður-Afríka. Sóttvarnalæknir hefur einnig gefið út tilmæli þar sem Íslendingar eru hvattir til að ferðast ekki til þessara landa, óháð bólusetningarstöðu eða sögu um fyrri sýkingu af völdum Covid-19.

Reglurnar, sem finna má hér, taka gildi frá og með 28. nóvember (á morgun). Þar að auki má sjá minnisblað sóttvarnalæknis hér.

Forskráning: Skylt er að fylla út rafrænt eyðublað fyrir komuna til landsins þar sem fram koma m.a. upplýsingar um hvar viðkomandi hefur dvalið og hvar hann mun dvelja í sóttkví á Íslandi. Forskráning fer fram á vefnum covid.is.

Covid-próf fyrir byrðingu: Við byrðingu erlendis ber að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi, annað hvort PCR-prófi eða mótefnavakaprófi (antigen-hraðprófi) sem er ekki eldra en 72 klukkustunda gamalt. Þau sem geta framvísað gildu vottorði sem sýnir að 14-180 dagar eru liðnir frá COVID-19 sýkingu eru undanþegin þessari skyldu, einnig börn fædd 2016 og síðar og sömuleiðis fólk sem er búsett á Íslandi eða hefur hér tengslanet.

Við komuna til Íslands: Allir sem koma frá hááhættusvæði, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki og óháð aldri, fara í PCR-próf við komuna til landsins og dvelja svo í fimm daga í sóttkví sem lýkur með öðru PCR-prófi.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis er talin hætta á því að Ómíkron; hið nýja afbrigði kórónaveirunnar, sé meira smitandi en delta-afbrigði veirunnar, valdi hugsanlega alvarlegri sýkingu og að bóluefni sem gefin hafa verið veiti ekki jafnmikla vörn fyrir þessu stökkbreytta afbrigði veirunnar og öðrum þekktum afbrigðum. Ráðherraráð Evrópusambandsins hefur því hvatt aðildarþjóðir til að bregðast við með framangreindum aðgerðum meðan verið er að kanna betur eiginleika veirunnar.


Tengdar fréttir

Telur allar líkur á að nýja afbrigðið komi til Íslands

Yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítala segir allar líkur á að nýtt afbrigði kórónuveirunnar, Ómíkron, komi til Íslands en bindur vonir við að bólusetningar muni veita viðunandi vernd. Afbrigðið breiðist hratt út og er talið hafa greinst í Þýskalandi og Tékklandi í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.