Innlent

Telur allar líkur á að nýja afbrigðið komi til Íslands

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á Landspítala, segir tímaspursmál hvenær nýja afbrigðið greinist á Íslandi. 
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á Landspítala, segir tímaspursmál hvenær nýja afbrigðið greinist á Íslandi.  Vísir/Egill

Yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítala segir allar líkur á að nýtt afbrigði kórónuveirunnar, Ómíkron, komi til Íslands en bindur vonir við að bólusetningar muni veita viðunandi vernd. Afbrigðið breiðist hratt út og er talið hafa greinst í Þýskalandi og Tékklandi í dag.

Afbrigðið greindist fyrst í Suður Afríku fyrr í mánuðinum og gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin nýja afbrigðinu heitið Ómíkron í vikunni. Um er að ræða næsta afbrigðið á eftir Delta sem stofnunin hefur teljandi áhyggjur af.

Sóttvarnalæknir hefur ráðið íbúum Íslands, óháð bólusetningu gegn COVID-19, frá ferðalögum til tiltekinna landa Afríku að nauðsynjalausu vegna útbreiðslunnar. 

Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, segir lítið vitað um afbrigðið á þessum tímapunkti en um 30 stökkbreytingar er að finna á gaddapróteini veirunnar. Afbrigðið hefur dreifst hratt út í Suður-Afríku og víðar, meðal annars í Evrópu.

„Það bendir óbeint til þess að hún gæti hugsanlega verið meira smitandi en það á eftir að fá það staðfest þannig við vitum það ekki almennilega enn þá. Við vitum heldur ekki hvort að bóluefnin sem nú eru í gangi munu virka vel gegn veirunni,“ segir Björn.

Það eigi eftir að koma í ljós eftir því sem tíminn líður hversu mikla vernd bóluefnin sem nú eru á markaði veita. Þá séu önnur bóluefni í þróun gegn nýjum afbrigðum veirunnar.

„Ég tel nú að það muni vernda okkur að einhverju leiti, sérstaklega þá sem eru búnir að fá örvunarskammtinn, en hversu mikla vernd það veitir miðað við Delta afbrigðið, það er of snemmt að segja til um það,“

Hann bendir þó á að í Suður Afríku og víðar er bólusetningarhlutfallið heldur lágt en veiran fær fleiri tækifæri til að fjölga sér í slíkum kringumstæðum og er þá hætta á að nýir stofnar verði til. Meðan svo er er áfram möguleiki að veiran breiði frekar úr sér. 

Þannig þetta gæti allt eins komið hingað til landsins?

„Ég held að það séu bara allar líkur á því að það muni gera það á einhverjum tímapunkti en vonandi mun það gerast þegar sem flestir eru búnir að fá örvunarbólusetningu, þannig að möguleiki veirunnar til að ná sér almennilega á strik mun þar af leiðandi væntanlega vera minni,“ segir Björn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×