Fótbolti

Ronaldinho gæti aftur verið á leið í fangelsi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldinho var heiðursgestur á leik Paris Saint-Germain og RB Leipzig á dögunum. PSG var fyrsta evrópska liðið sem Brassinn lék með.
Ronaldinho var heiðursgestur á leik Paris Saint-Germain og RB Leipzig á dögunum. PSG var fyrsta evrópska liðið sem Brassinn lék með. getty/Tnani Badreddine

Brasilíska fótboltagoðið Ronaldinho gæti verið á leið í fangelsi á ný því hann hefur ekki greitt fyrrverandi kærustu sinni framfærslueyri.

Ronaldinho hefur fengið frest til 1. desember til að leysa málin með fyrrverandi kærustu sinni, Priscillu. Annars á hann á hættu að eignir hans verði gerðar upptækar eða hann fari í fangelsi.

Ronaldinho þarf að greiða Priscillu rúmar tvær milljónir króna á mánuði. Hann hefur hins vegar trassað það og skuldirnar safnast upp.

Á síðasta ári var Ronaldinho stungið í steininn í Paragvæ fyrir að nota falsað vegabréf. Hann sat inni í 32 daga. Hann þurfti þó að dvelja í Paragvæ í næstum því hálft ár. Þá hefur Ronaldinho lent í vandræðum vegna ógreiddra skatta.

Ronaldinho, sem er 41 árs, var einn besti fótboltamaður heims á sínum tíma. Hann varð heimsmeistari með brasilíska landsliðinu 2002 og varð tvisvar sinnum Spánarmeistari og einu sinni Evrópumeistari með Barcelona. Þá varð hann ítalskur meistari með AC Milan 2011.

Ronaldinho fékk Gullboltann 2005 og var valinn besti leikmaður heims hjá FIFA 2004 og 2005.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.