Enski boltinn

Solskjær heiðraður með risastóru ljósaskilti í heimaborginni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær hafa borist góðar kveðjur síðasta sólarhringinn eða svo.
Ole Gunnar Solskjær hafa borist góðar kveðjur síðasta sólarhringinn eða svo. getty/Charlie Crowhurst

Íbúar Kristiansund í Noregi eru mjög stoltir af frægasta syni borgarinnar, Ole Gunnar Solskjær, jafnvel þegar á móti blæs.

Solskjær var rekinn frá Manchester United í gær eftir tæplega þriggja ára starf. Hann stýrði United í síðasta sinn í 4-1 tapi fyrir Watford í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Fjölmargir hafa sent Solskjær góðar kveðjur og óskað honum velfarnaðar, meðal annars leikmenn United.

Í heimaborg Solskjærs, Kristiansund, var einnig sett upp stórt ljósaskilti honum til heiðurs. Á því stóð 20 Legend með vísun í treyjunúmer Solskjærs meðan hann lék með United.

Solskjær tók við United af José Mourinho skömmu fyrir jól 2018. Fyrst í stað stýrði hann liðinu til bráðabirgða en var svo ráðinn stjóri þess í lok mars 2019 eftir að United vann fjórtán af fyrstu nítján leikjunum undir hans stjórn.

Solskjær fékk nýjan samning við United í sumar en gengið á þessu tímabili hefur verið slakt og hann hefur verið valtur í sessi undanfarnar vikur. Í gær var Norðmanninum svo sagt upp.

Áður en Solskjær tók við United stýrði hann Molde í heimalandinu. Hann gerði liðið tvisvar sinnum að norskum meisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×