Fótbolti

Smitaður og missir af fyrsta leiknum með Newcastle

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Eddie Howe er nýráðinn stjóri Newcastle
Eddie Howe er nýráðinn stjóri Newcastle EPA-EFE/PETER POWELL

Eddie Howe, nýráðinn knattspyrnustjóri Newcastle, er smitaður af kórónuveirunni og missir því af fyrsta leiknum sem stjóri liðsins. Newcastle á leik í dag gegn nýliðum Brentford.

Newcastle, sem hefur farið skelfilega af stað á tímabilinu og ekki unnið einn einasta leik, þarf nú að eiga við enn eitt áfallið en liðið hefur verið í miklum vandræðum í síðustu leikjum. Liðið rak Steve Bruce fyrir skemmstu en talið er að stefna nýrra eigenda sé að styrkja sig talsvert í félagaskiptaglugganum í Janúar.

Miðað við tímasetningu greiningarinnar þá verður Howe einnig fjarri góðu gamni þegar að Newcastle ferðast til Lundúna og spilar við Arsenal þann 27. nóvember næstkomandi. Sannkölluð blóðtaka.

Aðstoðarþjálfararnir Jason Tindall og Graeme Jones munu stýra liðinu í dag í fjarveru Howe, en Howe hefur sagt í samtali við breska fjölmiðla að hann sé einkennalítill og sé í stöðugum samskiptum við bæði leikmenn og þjálfara.

Newcastle situr við botn ensku úrvalsdeildarinnar, í nítjánda sæti, með einungis fimm stig. Liðið hefur ekki enn unnið leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×