Fótbolti

Reikna með að stórbæta aðsóknarmetið næsta sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslensku stelpurnar verða meðal keppenda á EM 2022.
Íslensku stelpurnar verða meðal keppenda á EM 2022. Vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, reiknar með að aðsóknarmet á Evrópumót kvenna falli næsta sumar. Mikil eftirsókn er í miða á mótið og nú þegar búið að selja tugi þúsunda miða.

Evrópumót kvenna í knattspyrnu fer fram í Englandi næsta sumar. Mikið hefur verið rætt og ritað um leikvanga mótsins en Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, hefur til að mynda sagt að leikvangurinn þar sem liðið leikur fyrstu tvo leiki sína á mótinu sé einfaldlega of lítill. 

Svo virðist sem Þorsteinn hafi eitthvað til síns máls en á vef UEFA kemur fram að sambandið reikni með því að aðsóknarmetið verði slegið og gott betur en það. Nú þegar hafa 162 þúsund miðar selst og þá hafa verið lagðar inn beiðnir um 268 þúsund miða til viðbótar. Koma beiðnirnar frá 118 löndum um heim allan.

Núverandi aðsóknarmet var sett á síðasta Evrópumóti, sem fram fór í Hollandi. Alls mættu þar 240 þúsund manns á leiki mótsins. Fór það svo að heimakonur stóðu uppi sem sigurvegari. 

Ef UEFA verður við beiðnum fólks um miða er ljóst að aðsóknarmetið er fallið og rúmlega það. Sambandið stefnir á að selja allt að 700 þúsund miða og miðað við eftirsókn ættu þeir að rjúka út. 

Ísland er eitt af þeim 16 liðum sem tekur þátt á EM í Englandi sumarið 2022. Ísland er í D-riðli er með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu. Leikir Íslands fara fram á Manchester City Academy-vellinum í Manchester og New York-vellinum í Rotherham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×