Fótbolti

Rodman valin nýliði ársins i bandarísku kvennadeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trinity Rodman í leik með Washington Spirit liðinu.
Trinity Rodman í leik með Washington Spirit liðinu. Getty/Randy Litzinger

Trinity Rodman átti frábært fyrsta tímabil í bandarísku kvennadeildinni í knattspyrnu og hún er nú komin alla leið í úrslitaleikinn um titilinn með liði sínu Washington Spirit.

Rodman fékk líka flotta viðurkenningu því hún var valin nýliði ársins í NWSL-deildinni. Hún hafði skrifað söguna með því að vera yngsti leikmaðurinn sem hefur verið valin í nýliðavali deildarinnar.

Trinity fékk líka á sig enn meiri athygli og pressu af því að hún er dóttir NBA goðsagnarinnar Dennis Rodman. Hún stóðs hins vegar þá pressu og gott betur.

Trinity var með sex mörk og sex stoðsendingar á tímabilinu en hún bjó alls til 35 marktækifæri fyrir liðsfélaga sína og átti alls 29 skot á markið.

Næst á dagskrá hjá henni er úrslitaleikur um bandaríska meistaratitilinn með Washington Spirit sem er á móti Chicago Red Stars annað kvöld.

Laura Harvey hjá OL Reign var valin besti þjálfari ársins og Jess Fishlock, miðjumaður Reign liðsins, var kosin mikilvægasti leikmaðurinn.

Caprice Dydasco hjá NJ/NY Gotham var varnarmaður ársins og Aubrey Bledsoe, liðsfélagi Trinity Rodman hjá Washington Spirit, var kosin besti markvörðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×