Erlent

Afneita eigin þingkonu vegna gagnrýni hennar á Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Liz Cheney á ekki sjö dagana sæla í Repúblikanaflokknum vegna gagnrýni hennar á undirróður Trump gegn réttarríkinu og stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Liz Cheney á ekki sjö dagana sæla í Repúblikanaflokknum vegna gagnrýni hennar á undirróður Trump gegn réttarríkinu og stjórnarskrá Bandaríkjanna. AP/Mary Schwalm

Repúblikanar í Wyoming í Bandaríkjunum samþykktu að afneita Liz Cheney, fulltrúadeildarþingmanni flokksins, og hvöttu landsnefnd flokksins til þess að reka hana. Staðföst gagnrýni Cheney á hlut Donalds Trump í árásinni á bandaríska þinghúsið fer fyrir brjóstið á flokkssystkinum hennar.

Cheney, sem er dóttir Dick Cheney fyrrverandi varaforseta, er einn íhaldssamasti þingmaður Repúblikanaflokksins. Hún kallaði hins vegar yfir sig reiði flestra félaga sinna þegar hún neitaði að láta af gagnrýni sinni á að Trump hefði eggjað stuðningsmenn sína til þess að ráðast á þinghúsið og stöðva staðfestingu úrslita forsetakosninganna.

Hún var þannig aðeins einn tíu fulltrúadeildarþingmanna flokksins sem greiddi atkvæði með því að kæra Trump fyrir embættisbrot eftir árásina. Henni var í kjölfarið vikið úr forystusveit þingflokksins. Hún situr nú í þingnefnd sem rannsakar aðdraganda árásarinnar þrátt fyrir að repúblikanar hafi ákveðið að taka ekki þátt í rannsókninni.

Aðeins nokkrir dagar eru síðan Cheney fullyrti opinberlega að Trump væri í stríði við réttarríkið og stjórnarskrána. Þingmenn Repúblikanaflokksins veittu honum liðsinni í þeirri hildi.

Nú hafa félagar Cheney í heimaríki hennar Wyoming gengið skrefinu lengra og samþykkt ályktun um að þeir viðurkenni hana ekki lengur sem repúblikana. Hvöttu þeir leiðtoga flokksins í fulltrúadeildinni til þess að svipta Cheney öllum nefndarverkefnum og reka hana úr flokknum alfarið.

Washington Post hefur eftir talsmanni Cheney að það sé hlægilegt að halda öðru fram en að hún sé trúr og íhaldssamur repúblikani. Hún sé janframt bundin eiði við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

„Því miður hefur hluti af forystusveit repúblikana í Wyoming yfirgefið þau grundvallarsjónarmið og í staðinn leyft að sér sé haldið í gíslingu af lygum hættulegs og óskynsams manns,“ sagði talsmaðurinn og vísaði til lyga Trump um að stórfelld svik hafi kostað hann sigur í kosningunum gegn Joe Biden.Fáir gagnrýnendur Trump flýja flokkinn

Þrátt fyrir allt sækist Cheney eftir endurkjöri í kosningum á næsta ári. Hún hefur þegar fengið fjögur mótframboð í forvali. Trump hefur lýst stuðningi við einn mótframbjóðenda hennar.

Þeir fáu repúblikanar sem hafa dirfst að andæfa Trump að einhverju leyti undanfarin ár hafa flestir flúið flokkinn og ekki gefið kost á sér til endurkjörs. Þeir tíu sem greiddu atkvæði með því að kæra Trump fyrir embættisbrot fengu strax mótframboð fyrir þingkosningarnar.

Trump sjálfur virðist enn hyggja á framboð til forseta árið 2024. Repúblikanaflokkurinn er enda enn nær algerlega undir hæl hans jafnvel þó að Trump hafi beðið ósigur í forsetakosningunum og flokkurinn hafi tapað meirihluta í báðum deildum þingsins í tíð hans.


Tengdar fréttir

Stefna nánum banda­mönnum Trump vegna á­rásarinnar á þing­húsið

Þingnefnd sem rannsakar árás stuðningsmanna Donald Trump á bandaríska þinghúsið í janúar hefur stefnt fjórum ráðgjöfum og embættismönnum hans til að bera vitni og afhenda gögn. Á meðal þeirra sem er stefnt er Mark Meadows, fyrrverandi skrifstofustjóri Hvíta hússins.

Stefna nánum banda­mönnum Trump vegna á­rásarinnar á þing­húsið

Þingnefnd sem rannsakar árás stuðningsmanna Donald Trump á bandaríska þinghúsið í janúar hefur stefnt fjórum ráðgjöfum og embættismönnum hans til að bera vitni og afhenda gögn. Á meðal þeirra sem er stefnt er Mark Meadows, fyrrverandi skrifstofustjóri Hvíta hússins.

Cheney vikið úr embætti: Ætlar áfram að beita sér gegn Trump

Liz Cheney var í dag vikið úr embætti sínu sem þriðji æðsti Repúblikaninn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Haldin var atkvæðagreiðsla hjá þingflokknum en úrslitin voru svo gott sem ljós löngu fyrir það, þar sem aðrir leiðtogar flokksins höfðu snúist gegn henni.

Stefna nánum banda­mönnum Trump vegna á­rásarinnar á þing­húsið

Þingnefnd sem rannsakar árás stuðningsmanna Donald Trump á bandaríska þinghúsið í janúar hefur stefnt fjórum ráðgjöfum og embættismönnum hans til að bera vitni og afhenda gögn. Á meðal þeirra sem er stefnt er Mark Meadows, fyrrverandi skrifstofustjóri Hvíta hússins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.