Fótbolti

Brynjólfur klikkaði á vítaspyrnu og tíu Grikkjum tókst að vinna ellefu Íslendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson fór illa með gott færi þegar hann klikkaði á vítaspyrnu.
Brynjólfur Andersen Willumsson fór illa með gott færi þegar hann klikkaði á vítaspyrnu. Getty/Peter Zador

Íslenska 21 árs landsliðið tapaði 1-0 á móti Grikkjum í undankeppni EM í Grikklandi í dag. Þetta voru sannkölluð töpuð stig því íslenska liðið var í góðri stöðu til að ná mun meira út úr þessum leik.

Grikkir skoruðu eina mark leiksins úr vítaspyrnu eftir 37. mínútna leik. Markið skoraði Giannis Michallidis.

Íslenska liðið varð manni fleiri frá fyrstu mínútu seinni hálfleiksins eftir að Georgios Kanellopoulos fékk sitt annað gula spjald.

Strákunum tókst hvorki að jafna metin eða tryggja sér sigurinn þrátt fyrir að vera manni fleiri í næstum því heilan hálfleik.

Næstur því að skora komst fyrirliðinn Brynjólfur Andersen Willumsson en hann skaut í stöngina og framhjá úr vítaspyrnu á 71. mínútu.

Brynjólfur var tekin af velli mínútu síðar.

Hákon Arnar Haraldsson var sparkaður niður í vítateignum þegar íslenska liðið fékk vítið en Finnur Tómas Pálmason fékk vítið dæmt á sig í fyrri hálfleiknum.

Íslenska liðið reyndi allt til þess að ná inn marki í lokin og besta færið fékk Kristall Máni Ingason í uppbótartíma en markvörður Grikkja varði og tryggði sínu liði sigurinn.

Íslensku strákarnir hafa spilað fimm leiki í riðlinum og unnið tvo þeirra og fengið sjö stig. Þeir gerðu 1-1 jafntefli við Grikki heima á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×