Erlent

Sam­særis­kenninga­smiður sekur um meið­yrði

Árni Sæberg skrifar
Alex Jones situr nú í súpunni vegna ummæla sinna um Sandy Hook árásina.
Alex Jones situr nú í súpunni vegna ummæla sinna um Sandy Hook árásina. Drew Angerer/Getty Images

Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones var í dag fundinn sekur í fjórum meiðyrðamálum sem aðstandendur barna sem létust í árásinni á Sandy Hook skólann höfðuðu gegn honum.

Um árabil hélt Alex Jones því fram að skotárásin á Sandy Hook skólann hafi verið sviðsett í þeim tilgangi að mynda pólitískan vilja fyrir hertari vopnalöggjöf í Bandaríkjunum. Tuttugu börn á aldrinum fimm til tíu ára létust í árásinni ásamt sex starfsmönnum skólans.

Jones rekur hægrisamsæriskenningamiðilinn Infowars. Hann er ekki síst þekktur fyrir vanstillt reiðiöskur í þáttum sínum. Þar hefur hann meðal annars sakað Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að hafa gert froska samkynhneigða.

Foreldrar margra barna sem dóu hafa höfðað mál gegn Jones í gegnum árin en með takmörkuðum árangri þangað til í síðasta mánuði. Þá var hann fundinn sekur í öðru álíka máli.

 

Foreldrar barnanna segja ummæli hans hafa valdið þeim gífurlegu tilfinningalegu tjóni í gegnum árin og leitt til þess að áhorfendur Jones hafi áreitt þau lengi. Þá hefur hann verið sagður hafa hagnast á umfjöllun sinni um málið.

Jones var dæmdur skaðabótaábyrgur gagnvart fjölskyldunum með útivistardómi þar sem hann veitti dóminum ekki þau gögn sem hann var beðinn um. Meðal annars um sönnun á fullyrðingum sínum og fjárhagsskýrslum.

Líkt og í dóminum frá því í október hafa bætur ekki verið ákvarðaðar í málinu. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins um málið verður það gert á næsta ári.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.