Fótbolti

Enginn Ís­lendingur í úr­vals­liði riðilsins: Jóhann Berg hæstur hjá Íslandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ilkay Gündogan stýrir umferðinni á miðju úrvalsliðs J-riðils.
Ilkay Gündogan stýrir umferðinni á miðju úrvalsliðs J-riðils. Boris Streubel/Getty Images

Tölfræðivefsíðan WhoScored hefur tekið saman meðaleinkunn allra leikmanna í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu og búið til úrvalslið hvers riðils fyrir sig. Enginn Íslendingur kemst í úrvalslið J-riðils.

Ísland endaði í 5. sæti af sex liðum með níu stig. Þrátt fyrir að enda í neðsta sæti riðilsins með aðeins eitt stig er Benjamin Büchel, markvörður Liechtenstein, í marki úrvalsliðsins. Það er góð ástæða fyrir því.

Hann varði alls 71 skot í undankeppninni, enginn varði fleiri og raunar var enginn nálægt honum.

Það kemur svo sem ekki á óvart að úrvalslið J-riðils er að mestu skipað leikmönnum Þýskalands en alls eru sex Þjóðverjar í liðinu. Þá eru þrír leikmenn frá Norður-Makedóníu ásamt Büchel í markinu.

WhoScored stillir upp í hefðbundið 4-4-2 leikkerfi. Jonas Hoffmann er í hægri bakverði, Tilo Kehrer er í miðverði ásamt Darko Velkovski. Þá er Ezgjan Alioski í vinstri bakverði. 

Serge Gnabry er á hægri vængnum og Leroy Sané á þeim vinstri. Á miðri miðjunni eru Ilkay Gündogan og Enis Bardhi.

Upp á topp eru svo Chelsea-mennirnir Kai Havertz og Timo Werner.

Samkvæmt WhoScored var Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Burnley á Englandi, með hæstu meðaleinkunnina í íslenska hópnum. Hann lék alls fjóra leiki og fékk 7,10 í meðaleinkunn.

Þar á eftir kom Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður CSKA Moskvu, en hann náði aðeins tveimur leikjum áður en hann meiddist illa. Hörður Björgvin var með 7,00 í meðaleinkunn.

Markvörðurinn ungi Elías Rafn Ólafsson (Midtjylland) lék fjóra leiki í undankeppninni og fékk 6,95 í meðaleinkunn. Miðjumaðurinn Stefán Teitur Þórðarson (Silkeborg) fékk 6,92 í meðaleinkunn og miðvörðurinn Brynjar Ingi Bjarnason (Lecce) fékk 6,89 í meðaleinkunn.

Brynjar Ingi spilaði sjö leiki fyrir Ísland í undankeppni HM 2022 og stóð sig með prýði.Vasile Mihai-Antonio/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×