Fótbolti

Ég er full­viss um að ís­lenska lands­liðið verður mjög gott aftur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson er spenntur fyrir komandi tímum hjá íslenska landsliðinu.
Arnar Þór Viðarsson er spenntur fyrir komandi tímum hjá íslenska landsliðinu. EPA-EFE/Friedemann Vogel

Arnar Þór Viðarsson ræddi við blaðamenn eftir leik Íslands og Norður-Makedóníu í Skopje. Þó Ísland hafi tapað 3-1 þá er Arnar Þór bjartsýnn fyrir hönd íslenska landsliðsins.

„Það sem tekur nú við er einfaldlega að halda áfram að greina árið. Við erum búnir að vera að því undanfarnar vikur. Eftir október gluggann fórum við í ítarlega greiningarvinnu, með gögn, tölfræði, hlaupatölur og myndbönd af leikjunum sem við höfum spilað.“

„Munum taka þessa tvo leiki inn í þá greiningu núna og gera upp árið alveg eins og ég hef alltaf gert sem þjálfari. Hvort sem það er eftir tímabil eða ár þá greini ég okkar og mína vinnu.“

„Það sem situr eftir er að allir eru svekktir að hafa ekki ráðist á annað sætið í þessum riðli en ég geri mér fulla grein fyrir af hverju það er og ég held að fólk viti það alveg heima. Það sem situr eftir hjá mér er sá staður sem við erum á, ég veit hvaða stað við erum á akkúrat núna. Ég er stoltur af þeim skrefum sem þetta lið hefur tekið síðan í lok ágúst.“

„Leikirnir í Rúmeníu og Norður-Makedóníu voru erfiðir sem munu gera okkur mikið betur búna til að sækja úrslit í svona leikjum innan skamms. Það er jákvætt að leikmenn eru að fá heila leiki í svona aðstæðum sem eru mikilvægt veganesti í reynslubankann. Það situr eftir hjá mér og það er mjög jákvætt.“

„Svo held ég bara ótrauður áfram ég veit alveg hvar þetta endar. Ég hef sagt það áður, ég er fullviss um að íslenska landsliðið verður mjög gott aftur. Hvort sem það sé eftir eitt, tvö eða fimm ár.“

„Við eigum marga leikmenn inni fyrir næsta ár. Það eru margir reyndir og frábærir leikmenn sem eru búnir að vera meiddir allt árið sem við eigum inni. Við munum verða mjög gott landslið aftur, það þarf bara að vinna þá vinnu og koma sér þangað. Það er langtíma verkefni, það gerist ekki á einni nóttu,“ sagði Arnar Þór Viðarsson um framtíð íslenska landsliðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.