Fótbolti

Dagný kom inn á er West Ham kastað frá sér sigrinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir og stöllur hennar í West Ham þurftu að sætta sig við svekkjandi jafntefli í dag.
Dagný Brynjarsdóttir og stöllur hennar í West Ham þurftu að sætta sig við svekkjandi jafntefli í dag. Tom Dulat/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir kom inn á sem varamaður fyrir West Ham er liðið gerði 2-2 jafntefli gegn Reading í ensku úrvalsdeild kvenna í dag. West Ham hafði tveggja marka forystu lengi vel, en gestirnir jöfnuðu leikinn í uppbótartíma.

Lisa Evans kom West Ham yfir á 19. mínútu og korteri seinna var staðan orðin 2-0 eftir mark frá Grace Fisk.

West Ham hafði því tveggja marka forystu í hálfleik, en þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum varð Abbey-Leigh Stringer fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og minnka þar með muninn fyrir gestina.

Dagný kom inn á sem varamaður á 72. mínútu, en það kom ekki í veg fyrir það að gestirnir skildu jafna leikinn. Jöfnunarmarkið kom þegar um tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, en þar var á ferðinni varamaðurinn Emma Harries.

West Ham situr nú í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig eftir sjö leiki, tveimur stigum meira en Reading sem situr sæti neðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×