Erlent

Allar þjóðir samþykktu nýjan lofts­lags­samning á elleftu stundu

Eiður Þór Árnason skrifar
Alok Sharma, forseti COP26, (annar frá hægri) og Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri UNFCCC, (til vinstri við hann) fögnuðu samkomulaginu í kvöld.
Alok Sharma, forseti COP26, (annar frá hægri) og Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri UNFCCC, (til vinstri við hann) fögnuðu samkomulaginu í kvöld. Ap/Alberto Pezzali

Öll 197 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu í kvöld nýjan loftslagssamning á COP26 loftslagsráðstefnunni í Glasgow. Síðkomin breyting á orðalagi um samdrátt í kolanotkun kom mörgum í opna skjöldu. 

Stuðningsaðilar samningsins telja að hann styðji við markmið um að halda hlýnun innan við 1,5 gráður en aðrir segja samkomulagið ekki ganga nógu langt. Loftslagsráðstefnunni átti upphaflega að ljúka í gær en þá hafði ekki náðst samstaða um innihald samningsins sem verður kenndur við Glasgow.

Fulltrúar Indlands og Kína kölluðu eftir þeirri breytingu á síðustu metrum viðræðnanna að í stað orðalags á þá leið að kolanotkun yrði hætt í áföngum (e. phase-out) yrði talað um að draga úr henni (e. phase-down) í skrefum.

Tillagan var samþykkt en fjölmargir hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með breytinguna, þar á meðal fulltrúar Evrópuþjóða og eyríkja.

Fulltrúar frá ólikum löndum stilltu sér upp fyrir hópmynd á lokadegi COP26 ráðstefnunnar.AP/Alberto Pezzali

Alok Sharma, forseti COP, sagði að samningurinn væri ófullkominn en að samþykkt hans sýndi að stuðningur og samstaða ríkti um markmiðið hans.

„Ég vona að við getum yfirgefið þessa ráðstefnu vitandi að okkur hafi tekist að skapa eitthvað þýðingarmikið fyrir jarðarbúa og plánetuna í sameiningu.“

Þá virtist Sharma reyna að halda aftur af tárum sínum í kvöld þegar hann sagðist skilja að margir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðu þingsins. Hann baðst afsökunar á því hvernig mál þróuðust en sagði að þrátt fyrir allt væri mikilvægt fyrir þjóðir heims að standa á bak við samninginn. 

Skuldbindingar samningsins dugi skammt

Fram kemur í frétt The Guardian að mikið vanti upp á til að skuldbindingarnar sem samþykktar voru um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda nái þeim viðmiðum sem þjóðir þurfi að ná til að halda í við 1,5 gráðu markmiðið. 

Þetta sýni tilmæli loftslagsvísindamanna sem benda til þess að frekari endurskoðun sé nauðsynleg ef þjóðir vilji halda sig innan 1,5 gráðu markmiðsins sem var lykilþáttur í Parísarsamkomulaginu. Hafa ríkin samþykkt að snúa aftur að samningaborðinu á ráðstefnu í Egyptalandi á næsta ári og yfirfara markmið sín.  

Frans Timmermans, samningamaður Evrópusambandsins, sagðist vonsvikinn með breytinguna á kolaákvæðinu og að sambandið hafi viljað ganga lengra en fyrri tillaga sagði til um. Þrátt fyrir það ætti orðalagið ekki að koma í veg fyrir að þjóðir heims myndu sammælast um „sögulega niðurstöðu“ í Glasgow. 

Fulltrúi Sviss sagði að þessi samningur muni ekki færa þjóðir nær því að ná 1,5 gráðu markmiðinu heldur þvert á móti gera þeim erfiðara um vik. Viðbætur sem hafi verið samþykktar á síðustu stundu hafi veikt áhrifamátt samkomulagsins. 

John Kerry, sem leiðir sendinefnd Bandaríkjamanna, segir að innihald samningsins setji markið hærra fyrir heiminn og að þjóðir geti ekki látið kröfur um fullkomnum hindra jákvæðar skref í rétta átt.

Sendinefnd Marshalleyja sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna og að hún hafi samþykkt samninginn með mikilli tregðu. Talið er að stór hluti eyjaklasans eigi á hættu að fara undir vatn á næstu áratugum ef fram heldur sem horfir en eyjurnar 1.200 liggja einungis tveimur metrum yfir sjávarmáli Kyrrahafsins.

Aðgerðarsinninn Greta Thunberg gefur ekki mikið fyrir afurð COP26 í færslu á Twitter og segir að hin raunverulega vinna muni halda áfram utan ráðstefnuhallarinnar í Glasgow.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Heims­leið­togar hafi brugðist komandi kyn­slóðum

Formaður Ungra umhverfissinna segir að leiðtogar heims hafi brugðist þegar kemur að því að sýna fram á metnaðarfull markmið í loftslagsmálum á lofstlagsráðstefnunni í Glasgow. Með samningsdrögum ráðstefnunnar verði erfitt að halda markmiði um að halda hlýnun innan 1,5 gráðu á lífi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×