Erlent

Öryggisverðir Bolsonaro í Róm sakaðir um ofbeldi gegn blaðamönnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bolsonaro þykir hafa verið utanveltu í Róm.
Bolsonaro þykir hafa verið utanveltu í Róm. epa/Maurizio Brambatti

Öryggisverðir Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, hafa verið sakaðir um að beita brasilíska blaðamenn sem voru viðstaddir nýafstaðinn G20 fund í Róm ofbeldi. Á götum borgarinnar var forsetinn harðlega gagnrýndur fyrir framgöngu sína í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.

Fleiri en 600 þúsund hafa látist af völdum Covid-19 í Brasilíu en Bolsonaro hefur ítrekað dregið úr alvarleika faraldursins, hunsað sóttvarnaðgerðir og sáð efasemdum um bóluefnin gegn SARS-CoV-2.

Heima fyrir stendur hann frammi fyrir ákærum sökum þess hvernig hann hefur tekið á kórónuveirufaraldrinum, meðal annars fyrir „glæpi gegn mannkyninu“.

Í Róm var Bolsonaro áberandi utanveltu og sat einn á meðan aðrir þjóðarleiðtogar ræddu saman. Þá var hann ekki viðstaddur myndatöku af leiðtoganum við Trevi-gosbrunninn.

Dagblaðið O Globo greindi frá því að blaðamaðurinn Leonardo Monteiro, sem starfar fyrir TV Globo, hefði verið kýldur í magann af öryggisvörðum Bolsonaro þegar hann spurði að því af hverju forsetinn hefði ekki tekið þátt í dagskrá fundarins í gær.

Þá sýna myndbandsupptökur hvernig öryggisverðir taka á blaðamönnum og stuðningsmenn forsetans gera hróp að þeim. Það liggur ekki fyrir hvort öryggisverðirnir voru brasilískir eða ítalskir en O Globo greindi frá því að Ítalirnir hafi átt að sjá um öryggi forsetans.

Guardian greindi frá.

Bolsonaro var ekki viðstaddur myndatökuna af leiðtogunum við Trevi-gosbrunninn.epa/Roberto Monaldo


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×