Innlent

Hótaði fólki með hamri

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mikið var um hávaðatilkynningar, ölvun og slagsmál í gærkvöldi og í nótt, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Mikið var um hávaðatilkynningar, ölvun og slagsmál í gærkvöldi og í nótt, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Mikill erill var á hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Tíu aðilar voru vistaðir í fangageymslu og fjölmargir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í Hlíðunum skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi, en hann var sagður hafa hótað fólki með hamri. Ekki liggur fyrir hvort fólki hafi orðið meint af, en einstaklingurinn var vistaður í fangageymslu.

Þá var ungur maður handtekinn í annarlegu ástandi fyrir að hafa ráðist á dyravörð í miðbænum. Dyraverðinum tókst að yfirbuga manninn og hélt honum þar til lögregla mætti á vettvang.

Lögregla stöðvaði marga ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.Einhverjir óku án ökuréttinda. Einn var tekinn á 126 kílómetra hraða í Laugardalnum þar sem hámarkshraði er 60 kílómetra hraði á klukkustund. Einstaklingurinn var sviptur ökuréttindum í kjölfarið.

Einstaklingur ók á steinvegg í miðbæ Reykjavíkur en grunur leikur á um ölvun við akstur. Talið er að maðurinn hafi aldrei öðlast ökuréttindi og var hann vistaður í fangageymslu í kjölfarið.

Tilkynnt var um reiðhjólaslys í Mosfellsbæ en maður hafði fallið af hjóli sínu og hlotið áverka í andliti. Reiðhjólamaðurinn var með hjálm en mikil hálka var á vettvangi. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku.

Þá var einstaklingur handtekinn í blokk í Kópavogi, grunaður um brot á vopnalögum. Í sama hverfi var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki en búið var að spenna upp glugga og fara þar inn. Ekki er vitað hverju var stolið, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×