Erlent

Tveggja mánaða fangelsi fyrir strok úr fangelsi fyrir 29 árum

Árni Sæberg skrifar
Hinn 64 ára Desic hafði sofið á ströndinni í nokkrar vikur þar til að hann ákvað að líf á bak við lás og slá væri betri tilhugsun en að vera heimilislaus.
Hinn 64 ára Desic hafði sofið á ströndinni í nokkrar vikur þar til að hann ákvað að líf á bak við lás og slá væri betri tilhugsun en að vera heimilislaus. Lögregla í NSW/Getty

Karlmaður sem gaf sig fram við lögreglu eftir nærri þriggja áratuga flótta undan réttvísinni var á dögunum dæmdur til að sæta fangelsisvist í tvo mánuði auk þess tíma sem hann átti eftir að afplána þegar hann strauk.

Darko Desic tókst að flýja úr Grafton-fangelsinu í Nýju Suður-Wales í byrjun ágúst 1992 þar sem hann beitti járnsagarblaði og klippum. Hann gaf sig fram við lögreglu í september síðastliðnum eftir að hann missti starf sitt og heimili vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á efnahag Ástralíu.

Desic hafði afplánað þrettán mánuði af tæplega þriggja og hálfs árs dómi sem hann hlaut fyrir kannabisræktun þegar hann flúði. Eftir víðtæka lögreglu tókst ekki að hafa hendur í hári Desics.

Hann játaði brot sitt skýlaust og var færður í fangelsi til þess að afplána þá fjórtán mánuði sem átti eftir af refsingu sinni.

Á fimmtudag sagðist Jennifer Atkinson, dómari í máli Desics, ekki eiga annarra kosta völ en að bæta við refsidóm Desics fyrir uppátækið. Hún ákvað þó að bæta aðeins við tveimur mánuðum þrátt fyrir að áströlsk lög geri ráð fyrir allt að tíu ára fangelsisrefsingu fyrir strok úr fangelsi.

Að sögn AP fréttaveitunnar féllst Atkinson á skýringu Desics þess efnis að hann hefði strokið vegna raunverulegs ótta um að hann yrði sendur aftur til heimalands síns, Júgóslavíu heitinnar.

Hann hafi óttast að þurfa að berjast í styrjöldinni sem leiddi til þess að Júgóslavía leið undir lok.

Paul McGirr, verjandi Desics, sagði við blaðamenn eftir dómsuppkvaðningu að Desic hefði borist bréf frá landamæraeftirliti Ástralíu þess efnis að honum yrði vísað úr landi.

„Hafið í huga að hann hefur ekkert heimaland til að snúa aftur til. Vonandi mun einhver með almenna skynsemi athuga málið,“ sagði McGirr.


Tengdar fréttir

Gaf sig fram eftir 29 ár á flótta

Maður sem flúði úr áströlsku fangelsi fyrir nærri þrjátíu árum hefur gefið sig fram við lögreglu eftir að hann missti heimili sitt í kjölfar faraldurs kórónuveirunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×