Erlent

Kanna leiðir til að draga úr áhrifum geimferða

Samúel Karl Ólason skrifar
Matthias Maurer, Tom Marshburn, Raja Chari og Kayla Barron.
Matthias Maurer, Tom Marshburn, Raja Chari og Kayla Barron. NASA/Joel Kowsky

Fjórum geimförum verður skotið út í geim á sunnudagsmorgun. Þau munu verja næstu mánuðum við störf og rannsóknir í Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimförunum verður skotið út í geim um borð í Crew Dragon geimfari SpaceX.

Þetta er í þriðja sinn sem SpaceX skýtur geimförum til geimstöðvarinnar.

Þrír geimfaranna eru á vegum Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og einn á vegum Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA). Frá Bandaríkjunum eru þau Raja Chari, Tom Marshburn og Kayla Barron. Matthias Maurer verður á vegum ESA.

Þau taka með sér birgðir til geimstöðvarinnar og sömuleiðis rannsóknarbúnað sem þau munu nota á næstu mánuðum.

Meðal annars munu þau gera tilraunir varðandi áhrif matvæla á geimfara. Hvernig bæta megi ónæmiskerfi og garnaflóru í geimnum og hvort það hafi jákvæð áhrif á líkama geimfara. Geimferðir hafa veruleg áhrif á geimfara og er sífellt verið að leita leiða til að draga úr þeim.

Þau munu einnig framkvæma genarannsóknir og kanna leiðir til að draga úr vöðva- og beinarýrnun í geimnum með líkamsrækt.

Geimfarar um borð í geimstöðinni stunda líkamsrækt í um tvo og hálfan tíma á degi hverjum til að draga úr rýrnun. ESA er að leita leiða til að rafmagnsbylgjur á vöðva til að draga úr rýrnun. Til þess mun Maurer klæðast sérstökum búningi við líkamsrækt.

Áhöfnin mun einnig framkvæma viðhald á geimstöðinni og kanna að nýjar uppfærslur virki sem skyldi. Þar á meðal er nýtt klósett sem var nýverið komið fyrir í geimstöðinni.

Áætlað er að geimfararnir muni koma að rúmlega tvö hundruð verkefnum á næstu mánuðum.

NASA mun sýna frá geimskotinu á sunnudaginn á Youtube. Hægt er að nálgast útsendinguna hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×