Innlent

Vara við að tæki séu hlaðin á nóttunni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun varar við því að raftæki séu hlaðin á nóttunni eins og eflaust flestir gera.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun varar við því að raftæki séu hlaðin á nóttunni eins og eflaust flestir gera. Getty/Jakub Porzycki

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, varar við því að raftæki séu hlaðin á nóttunni, á meðan enginn getur fylgst með þeim. Borið hefur á að eldur hafi kviknað út frá raftækjum, til dæmis símum, rafhjólum og rafhlaupahjólum. 

„Undanfarið hafa verið í fréttum brunar í rafhlöðum rafhlaupahjóla. Svo virðist sem bæði hafi kviknað í rafhlöðu í hleðslu og annarri sem ekki var í hleðslu,“ segir í tilkynningu á vef HMS. 

Greint var frá því 17. september síðastliðinn að eldur hafi kviknað út frá rafhlaupahjóli, sem var í hleðslu í íbúð við Bríetartún í Reykjavík. Töluverður eldur kom upp í íbúðinni og varaði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, í kjölfarið við því að fólk hefði slík raftæki í hleðslu inni í íbúðum sínum. 

Sagði hann jafnframt að nokkrum sinnum hafi slökkvilið verið kallað út vegna elds sem hafi kviknað út frá rafhlaupahjólum og rafhjólum. Eldur hafi þó einnig kviknað út frá minni tækjum eins og farsímum sem hafi verið í hleðslu uppi í rúmi. 

Í tilkynningu HMS segir að jafnvel hafi komið upp brunar eða jafnvel sprengingar í rafhlöðum ýmissa tækja, til dæmis farsíma, rafretta, spjaldtölva og svifbretta. 

„Ofangreind tæki og fleiri nota liþíum jóna rafhlöður (Li-ion) sem orkugjafa. Þessi gerð rafhlöðu er valin til notkunar í tækjum vegna ótvíræðra kosta sem hún hefur, en hún hefur einnig nokkra ókosti og því þarf að hafa varann á við meðferð þessara tækja/rafhlaða,“ segir í tilkynningunni. 

Þar er nefnt að kostir slíkra rafhlaða séu meðal annars að auðvelt sé að hlaða þær við lágan straum, þær séu léttar og geymi mikla orku, þoli margar hleðslur og afhleðslur og haldi orku mjög vel. 

Ókostir séu þó nokkrir, þar á meðal að rafhlöðurnar séu viðkvæmar fyrir höggum, frosti og háum hita. Þá þurfi að vanda rafrás til að stýra straumi og spennu, og rafhlöðurnar geti gefið frá sér brennanlegar lofttegundir. Þær geti þá jafnvel sprungið og erfitt geti reynst að slökkva í þeim eld. 

Fólk er þá hvatt til að hlaða tæki með slíkum rafhlöðum ekki þegar allir eru sofandi eða þegar enginn er til staðar. Hleðslubúnaður sem fylgi tækjunum sé notaður, gætt sé að því að rafhlaða og hleðslutæki séu á flötu óbrennanlegu undirlagi, engin brennanleg efni séu nálægt og ekki sé breitt yfir tækið eða hleðslubúnað. Þá séu tækin hlaðin í rýmum þar sem reykskynjari er til staðar, tækin séu ekki hlaðin í frosti eða miklum hita og skemmd rafhlaða sé aldrei hlaðin. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×