Innlent

Raf­hlaupa­hjólin best hlaðin á af­viknum stað vegna eld­hættu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir vænlegast að rafhlaupahjól séu sett í hleðslu á afviknum stað fremur en inni í íbúðum fólks.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir vænlegast að rafhlaupahjól séu sett í hleðslu á afviknum stað fremur en inni í íbúðum fólks. Vísir/Samsett

Veruleg hætta getur stafað af raftækjum sem eru í hleðslu inni á heimilum fólks. Eldur kom upp í íbúð á föstudag sem talinn er hafa kviknað út frá rafhlaupahjóli sem þar var í hleðslu. 

Töluverður eldur kom upp í íbúð að Bríetartúni á föstudaginn. Meginkenning lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er sú að eldurinn hafi kviknað út frá rafhlaupahjóli sem var í hleðslu í íbúðinni. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, varar við því að fólk hlaði slík farartæki inni í íbúðum sínum.

„Fólk þarf að fara varlega og hlaða þessi tæki þar sem er eins öruggt og hægt er. Menn þurfa aðvera mjög passasamir að þetta liggi ekki utan í einhverju öðru, og það séu ekki settar flíkur yfir viðkomandi grip,“ segir Jón Viðar. 

Slökkviliðið hafi verið kallað út nokkrum sinnum vegna elds sem hafi kviknað út frá rafhlaupahjólum eða rafhjólum. Eldur geti þó einnig kviknað út frá minni tækjum, eins og símunum okkar.

„Þá höfum við minnisstætt útkall þar sem síminn var uppi í rúmi hjá viðkomandi og var í hleðslu. Svo kom í ljós við nánari skoðun að snúran var orðin trosnuð, hún var orðin léleg snúran sjálf. Það er að mörgu að hyggja í þessum málum. “

Stóru raftækin best hlaðin á afviknum stað

Fólk verði alltaf að vera vakandi fyrir hættunum sem stafi af raftækjum á heimilinu.

„Athuga hvort allar snúrur og tæki séu eitthvað farin að gefa sig, svo er gott að finna hvort sé einhver hitamyndun í gangi en aðalmálið er auðvitað að vera með þetta á þannig stað að það stafi sem minnst hætta af því,“ segir Jón Viðar. 

Þá sé ekki síður mikilvægt að fólk tryggi að reykskynjarar séu til staðar á heimilum, þeir séu í lagi, en best væri þó að hlaða þessi stóru raftæki á afviknum stað, til dæmis inni í bílskúr eða slíku rými. 

Greint var frá því á föstudag að rúða í íbúðinni að Bríetartúni hafi sprungið. Jón Viðar segir óljóst hvort sprengingin hafi verið út frá hlaupahjólinu sjálfu eða vegna gasefna sem losnuðu við eldinn. 

„Það er nú ekki alveg vitað hvort sprengingin hafi verið út frá viðkomandi hlut sem kviknaði í eða hvort það voru gösin sem mynduðust þarna og voru að valda sprengingunni, það er ekki alveg vitað en það er ekki hægt að útiloka eitt eða neitt í þessu,“ segir Jón Viðar. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×