Umfjöllun: Ísland - Kýpur 5-0 | Dimmalimm í Dalnum

Sindri Sverrisson og Sverrir Mar Smárason skrifa
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld og hér fagnar hún öðru þeirra með Guðnýju Árnadóttur.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld og hér fagnar hún öðru þeirra með Guðnýju Árnadóttur. Vísir//Vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta átti ekki í vandræðum með að vinna Kýpur, 5-0, í undankeppni HM í kvöld í síðasta heimaleik sínum á þessu ári.

Dagný Brynjarsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir komu Íslandi í 3-0 í fyrri hálfleik, og Sveindís og Alexandra Jóhannsdóttir bættu svo við tveimur mörkum í seinni hálfleik.

Ísland komst þar með upp í 2. sæti undanriðils síns og er með sex stig eftir þrjá leiki. Holland er efst með 10 stig eftir fjóra leiki, Tékkland er með 4 stig eftir þrjá leiki, Hvíta-Rússland 3 stig eftir tvo leiki og Kýpur án stiga eftir fjóra leiki. Næsti leikur Íslands er gegn Kýpur á útivelli í nóvember.

Byrjunarlið frá 21. öldinni

Ungt byrjunarlið Íslands steig engin sérstök feilspor. Meirihluti liðsins er fæddur á þessari öld og í því voru til að mynda Amanda Andradóttir sem lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði fyrir Ísland, 17 ára gömul, og hin 18 ára Cecilía Rán Rúnarsdóttir sem stóð í markinu en fékk aldrei að verja skot í leiknum.

Amanda Andradóttir lék sinn annan A-landsleik og var í fyrsta sinn í byrjunarliði.vísir/vilhelm

Það var snemma ljóst í hvað stefndi í Laugardalnum í kvöld – að leikurinn snerist aðeins um það hversu mörg mörk Ísland myndi skora gegn einu slakasta landsliði Evrópu.

Keppinautar Íslands í undanriðlinum, Holland og Tékkland, höfðu skorað átta mörk hvort gegn Kýpur og íslenska liðið var í sama gír enda mótspyrnan vandræðalega lítil.

Ólíklegt að markafjöldinn skipti máli

Það er afar hæpið að markafjöldinn skipti máli þegar undankeppninni lýkur í september á næsta ári en það sakar aldrei að skora mörk. Leikirnir við Kýpur verða þó alveg örugglega ekki það sem ræður úrslitum um hvort að Ísland, Holland eða Tékkland komast á HM, enda gilda innbyrðis úrslit ef að tvö eða fleiri lið enda jöfn að stigum.

Þess vegna nýtti Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari leikinn til að gefa sem flestum leikmönnum tækifæri til að sýna sig og sanna, og ná kannski úr sér smá sviðsskrekk við að klæðast bláu treyjunni í mótsleik. Það gæti hjálpað liðinu þegar fram líða stundir en Þorsteinn hefði getað stillt upp hvaða ellefu manna liði sem er í kvöld og samt fagnað sigri.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði fyrsta markið á 14. mínútu, með skalla eftir fyrirgjöf Elísu Viðarsdóttur, og er nú komin með 32 mörk í sínum 95 landsleikjum sem miðjumaður.

Dagný Brynjarsdóttir skorar hér fyrsta mark Íslands í leiknum með einum af sínum frægu sköllum.Vísir/Vilhelm

Sveindís Jane Jónsdóttir er of fljót fyrir bakverði Hollands og Tékklands, svo hún átti ekki í neinum vandræðum með að fífla varnarmenn Kýpur. Hún kom Íslandi í 2-0 upp á sitt einsdæmi eftir 20 mínútna leik.

Karólína skoraði tvö en fékk bara eitt skráð

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir virtist hafa bætt við þriðja markinu á 32. mínútu en það var ranglega dæmt af. Hún fékk hins vegar að eiga markið sem hún skoraði rétt fyrir hálfleik þegar hún kom Íslandi í 3-0, eftir frekar rólegt korter hjá íslenska liðinu sem virtist láta það hafa örlítið svæfandi áhrif á sig hvernig kýpverska liðið lét í leiknum. 

Cecilía Rán Rúnarsdóttir var markvörður Íslands í kvöld en fékk aldrei að reyna á sig gegn slöku liði Kýpur.vísir/vilhelm

Gestirnir voru nefnilega sífellt að leggjast niður í grasið, af ókunnum ástæðum, og fengu miskunnsaman dómarann til að stöðva leikinn. Það hjálpaði til við að hægja á leiknum en íslenska liðið lét það ekki angra sig of mikið.

Úrslitin voru sem sagt í raun ráðin í leikhléi en Ísland hélt ágætlega dampi framan af seinni hálfleik. Sveindís bætti við öðru marki og Alexandra Jóhannsdóttir skoraði svo eftir hornspyrnu Amöndu á 64. mínútu.

Steinvala frekar en hraðahindrun

Þorsteinn var fljótur að gera skiptingar í seinni hálfleiknum og varamennirnir fimm sem komu inn á fengu drjúgan tíma inni á vellinum þó að ekki næðu þeir að setja sérstaklega mikið mark á hann. 

Leikurinn fjaraði smám saman út en 2.175 áhorfendur sem mættu á völlinn, þrátt fyrir rigningu og gjólu, tóku svo þátt í víkingaklappi með leikmönnum eftir leik og fögnuðu fínni frammistöðu og afar öruggum sigri.

Það var ágætlega stutt við íslenska liðið í kvöld þó að veðrið væri ansi óspennandi.vísir/vilhelm

Það er varla hægt að líta á lið Kýpur sem hraðahindrun á leiðinni á HM í Ástralíu. Frekar að það megi kallast steinvala. Íslenska liðið hrasaði ekki um hana og virðist á réttri leið en það skýrist þó ekki betur fyrr en í útileikjunum mikilvægu gegn Tékklandi og Hollandi á næsta ári, og á sjálfu Evrópumótinu í júlí en dregið verður í riðla fyrir það á fimmtudaginn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira