Fótbolti

„Maður kyngir þessu á æfingu og er svo glaður í hádegismat“

Sindri Sverrisson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagna eftir að hafa búið til fyrsta mark Íslands í 4-0 sigrinum gegn Tékklandi á föstudaginn.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagna eftir að hafa búið til fyrsta mark Íslands í 4-0 sigrinum gegn Tékklandi á föstudaginn. vísir/hulda margrét

„Við erum alltaf glaðar þegar við erum komnar inn í herbergi,“ segir Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona í fótbolta. Hún á í harðri samkeppni um stöðu í byrjunarliði Íslands, meðal annars við herbergisfélaga sinn, Alexöndru Jóhannsdóttur.

Ísland mætir Kýpur í undankeppni HM í kvöld klukkan 18:45 en byrjunarliðið verður gert opinbert um það bil 90 mínútum fyrir leik.

Þó að Karólína og Alexandra séu ólíkir leikmenn eru þær báðar miðjumenn. Alexandra var í byrjunarliðinu í 2-0 tapinu gegn Hollandi í síðasta mánuði en Karólína kom inn í hennar stað í 4-0 sigrinum gegn Tékklandi á föstudag. Dagný Brynjarsdóttir lék þá aftast á miðjunni í stað Alexöndru en Karólína var framar.

Sumar með meira keppnisskap en aðrar

„Ég held að Steini [Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari] geti alla vega ekki kvartað,“ sagði Karólína um samkeppnina í íslenska landsliðinu.

„Ég fékk að finna fyrir samkeppninni fyrir síðasta leik og svo Alexandra núna. Þetta er bara skemmtilegt og þá þarf maður bar að leggja meira á sig. Auðvitað eru sumar með meira keppnisskap en aðrar en það eru allar í þessu saman og að vinna að sama verkefni. Þetta er bara fyrir Steina [að ákveða byrjunarliðið],“ sagði Karólína létt á blaðamannafundi í gær.

Klippa: Karólína um samkeppnina í landsliðinu

En hafa þá einhverjir leikmenn tekið því mjög illa að vera ekki í byrjunarliðinu?

„Nei, nei, nei. Það eru allir hressir. Maður kyngir þessu á æfingu og er svo glaður í hádegismat,“ sagði Karólína.

„Djókum og svo erum við orðnar sáttar“

Aðspurð hvort það ylli einhverri togstreitu að þær Alexandra, herbergisfélagarnir, hefðu verið til víxl í byrjunarliðinu sagði Karólína svo ekki vera: „Við erum alltaf glaðar. Það er alltaf gaman að koma inn í herbergi. Við djókum og svo erum við orðnar sáttar. Það er aldrei neitt vesen,“ sagði Karólína brosandi. En gerir hún sér ekki vonir um sæti í byrjunarliðinu í kvöld?

Klippa: Karólína í samkeppni við herbergisfélagann

„Ég reyni alltaf að gera mitt besta á æfingum en svo er það undir Steina komið að velja besta liðið. Mér finnst ég koma með ró inn á miðjuna [gegn Tékklandi] og svo fæ ég smáfrelsi frá Steina til að koma með einhver „skemmtilegheit“. Ég er kannski meira sóknarsinnuð en hinar. Svo sér maður bara til hvort maður hafi gert nógu vel til að fá að spila [í dag].“


Tengdar fréttir

Svava í franskri frystikistu: „Hann vildi strax ekkert með mig hafa“

„Ég veit ekki hvað ég hef gert til að verðskulda þetta. Ég er gjörsamlega í frystikistunni og tel mjög ólíklegt að ég fái eitthvað að spila,“ segir landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttur um leiðindastöðu sína hjá franska knattspyrnufélaginu Bordeaux.

„Hugsa um mig eins og mamma og pabbi“

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fékk Glódísi Perlu Viggósdóttur sem liðsfélaga hjá Bayern München í sumar og nýtur þess innan sem utan vallar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.